Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag var rætt um málefni Reykjavíkurflugvallar og studdi Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknar tillögu Sjálfstæðisflokksins um atvinnuuppbyggingu við flugvöllinn í Vatnsmýri. Einar sagði í Sprengisandi í dag að Samfylkingin hafi óskað eftir hléi á fundi borgarstjórnar á þriðjudag og gagnrýnt málflutning Framsóknar á hliðarfundi með oddvitum meirihlutans.
Einar hefur ekki gefið kost á viðtali en sagði í samtali við fréttastofu að á umræddum fundi hafi Samfylking hótað meirihlutaslitum ef Framsókn legði fram bókun um málefni borgarstjórnarfundarins. Orðið slit hafi þannig fyrst komið upp í umræddu fundarhléi. Hann segir undarlegt að oddvitar í meirihlutanum tali um að það hafi ekki verið neinn mælanlegur ágreiningur og að ákvörðun Framsóknar hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Upplifði taugaveiklun hjá samstarfsflokkum
„Við höfum þurft að sitja undir ræðum borgarfulltrúa þessara flokka sem fjalla að fullkomnu ábyrgðarleysi um flugvöllinn, og um sjúkraflug, og það er dálítið hlegið að því ef einhver styður flugvöllinn. Ég kann bara ekki við svona pólitík. Við erum höfuðborg Íslands og berum ábyrgð gagnvart landsmönnum,“ sagði Einar jafnframt í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
„Við fórum og sögðum okkar skoðun og þá brast mikil taugaveiklun í samstarfsflokkana okkar. Samfylkingin kallaði eftir fundarhléi sem var dramatískur fundur, á meðan aðrir flokkar biðu. Á þeim fundi vorum við sökuð um það að fara í árás gegn Samfylkingu og þarna er fyrst fært í orð að það séu slit á meirihlutasamstarfinu vegna þess hvernig Framsókn gekk fram og hagaði sínum málflutningi og vildi bóka um það,“ bætti Einar við.
„Ég var sakaður um það tala ekki fyrir stefnu meirihlutans og þetta væri árás á Samfylkinguna. Það bara rann bara upp fyrir borgarstjórnarhópi Framsóknar að núna væri oddvitahópurinn þannig skipaður að við myndum ekki komast áfram með neitt af þeim málum sem við viljum komast fram með.“
Gaf lítið fyrir orðróm um viðræður til vinstri
Eftir fundinn á þriðjudag hafi það verið mat borgarfulltrúa Framsóknar að þau kæmust ekki lengra í þessu samstarfi og þyrftu að standa á sinni sannfæringu.
Í viðtalinu í Sprengisandi minnist Einar á að orðrómur hafi verið uppi um að Samfylkingin hafi viljað mynda nýjan meirihluta í borginni til vinstri áður en hann hafi slitið samstarfinu á föstudag. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík sagði það rangt í samtali við fréttastofu í gær að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar hafi verið að skoða slíka meirihlutamyndun.
„Þetta er úr einhverjum slúðurdálki í Viðskiptablaðinu og er rangt. Heiða getur ekki myndað meirihluta til vinstri nema að tala við mig eða Sósíalista og hún hefur ekki gert það,“ sagði Líf.
Fréttin hefur verið uppfærð.