Fótbolti

Hneyksli í Tyrk­landi: Fóru heim í fýlu yfir víti

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Adana Demirspor gengu allir af velli í Istanbúl í gær til að mótmæla dómgæslunni.
Leikmenn Adana Demirspor gengu allir af velli í Istanbúl í gær til að mótmæla dómgæslunni. Getty

Leikmenn Adana Demirspor yfirgáfu völlinn og héldu heimleiðis, samkvæmt skipun, til að mótmæla dómgæslunni í leik gegn Galatasaray í gær í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Galatasaray komst yfir í leiknum á 12. mínútu þegar Alvaro Morata skoraði úr vítaspyrnu, gegn botnliði Adana Demirspor.

Leikurinn hélt svo áfram þar til að þjálfari Adana Demirspor, Mustafa Alper Avci, kallaði á leikmenn sína og eftir stuttar samræður gengu þeir allir af vellinum og til búningsklefa.

Dómarinn fór svo af vellinum og í kjölfarið var tilkynnt að leikurinn hefði verið blásinn af.

Varaformaður Adana Demirspor, Metin Korkmaz, sagði að ákvörðunin um að yfirgefa völlinn hefði verið til að mótmæla dómgæslunni, og að ákvörðunin hefði verið tekin af forsetanum Murat Sancak, sem í sjónvarpsviðtali daginn fyrir leik sagðist „vona að dómarinn reyni ekki að vera sætur fyrir Galatasaray“.

Sancak staðfesti sjálfur að vítaspyrnudómurinn hefði verið aðalástæðan fyrir því að hann sagði leikmönnum að yfirgefa völlinn. Ákvörðunin hefði ekkert haft með lið Galatasaray að gera.

„Það voru 99% líkur á því að við myndum tapa í dag hvort sem er,“ sagði Sancak.

Það er nú í höndum tyrkneska knattspyrnusambandsins að ákveða hverjar afleiðingarnar verða en Okan Buruk, stjóra Galatasaray, var ekki skemmt:

„Mér finnst þetta ekki léttvæg ákvörðun. Þetta stórskaðar tyrkneskan fótbolta. Mér þykir fyrir þessu. Það er alltaf verið að gera eitthvað svona sem lætur tyrkneskan fótbolta líta illa út,“ sagði Buruk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×