Innlent

Mið­flokkurinn gagn­rýnir að Daði Már flytji tölu

Jakob Bjarnar skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra en ekki þingmaður, að sögn Miðflokksmanna.
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra en ekki þingmaður, að sögn Miðflokksmanna. Vísir/Einar

Stefnuræða Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra er á dagskrá í kvöld. Svo virðist sem Miðflokkurinn sé kominn í stjórnarandstöðuham nú þegar því hann gerir athugasemd við það að meðal ræðumanna sé Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.

Samkvæmt dagskrá þingsins flytur Kristrún forsætisráðherra stefnuræðu sína í kvöld. Það mun hún gera klukkan 19:40. Umræðurnar skiptast í tvær umferðir, forsætisráðherra hefur 12 mínútur í framsögu en aðrir þingflokkar hafa sex mínútur í fyrri umferð. Í seinni umferð hafa allir ræðumenn sex mínútur.

Á vef Alþingis er að finna lista yfir þá „þingmenn“ sem munu flytja ræðu eftir að Kristrún hefur lokið máli sínu.

Miðflokkurinn í Mosfellsbæ gerir athugasemd við þetta.

„Glöggur kjósandi hefur beint því til okkar að leita uppi þá er vita til þess að núverandi fjármála- og efnahagsráðherra hafi ritað undir drengskaparheitinn á Alþingi Íslendinga,“ segir á Facebook-síðu flokksins.

„Er Daði Már Kristófersson þingmaður? Við skulum vona að efni stefnuræðunnar sé vandaðari en þessi útlegging á dagskrá þingsins fyrir kvöldið.“

Af þessu má ráða að stjórnarandstaðan verður vakandi yfir hverju skrefi ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×