Innlent

Sex kennarar á landinu enn í verk­falli

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leikskóli Snæfellsbæjar er með starfsstöðvar í Ólafsvík og á Hellissandi.
Leikskóli Snæfellsbæjar er með starfsstöðvar í Ólafsvík og á Hellissandi. Vísir/Vilhelm

Verkfallsaðgerðir kennara standa enn yfir þrátt fyrir ákvörðun Félagsdóms, sem komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að aðgerðirnar væru að stærstum hluta ólögmætar.

Kennarar í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum mættu þannig aftur til vinnu á mánudag en þar sem verkfallsaðgerðirnar í Leikskóla Snæfellsbæjar voru dæmdar lögmætar standa þær enn yfir.

Sex kennarar eru því enn í verkfalli á landinu öllu.

„Já, við erum eini leikskólinn á landinu í verkfalli,“ segir leikskólastjórinn Hermína Kristín Lárusdóttir.

Starfsmenn leikskólans, sem er með starfsstöðvar í Ólafsvík og á Hellissandi, eru samtals 28. Starfsstöðvarnar hafa verið opnar, samkvæmt tilmælum frá Sambandi íslenskra sveitarfélega, en viðveran skert og deildir opnar til skiptis.

Spurð um framhaldið, hvort verkfall muni standa áfram yfir á leikskólanum þar til yfir lýkur, segist Hermína ekki hafa hugmynd um það. Hún hafi ekkert heyrt. 

Verkfallið hafi verið dæmt lögmætt og af því leiði að kennarar skólans séu enn í verkfalli.

Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að önnur verkföll væru ólögmæt, þar sem verkföll ættu að ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitanda. Þar sem Leikskóli Snæfellsbæjar er eini leikskóli sveitarfélagsins, er verkfallið þar lögmætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×