Upp­gjör: Grinda­vík - Álfta­nes 92-94 | Dúi hetjan í fjar­veru NBA mannsins

Andri Már Eggertsson skrifar
465268538_1866022103923148_8098268232836443367_n
vísir/Jón Gautur

Álftnesningar mættu án NBA leikmannsins síns í Smárann í kvöld en unnu samt dramatískan tveggja stiga sigur á Grindvíkingum á þeirra heimavelli, 94-92.

Álftanesliðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð í Bónus deild karla í körfubolta. Þetta átti að vera slagur milli NBA leikmanna en aðeins NBA maður Grindvíkinga mætti til leiks.  Pargo var magnaður með 39 stig en klikkaði á lokaskoti leiksins.

Álftanes komst mest nítján stigum yfir í fyrri hálfleiknum en Grindavík vann sig inn í leikinn. Í lokin var allt undir en Dúi Þór Jónsson skoraði sigurkörfuna.

Gestirnir frá Álftanesi fóru vel af stað. Liðið spilaði án Bandaríkjamannsins, Justin James, en það var ekki að sjá í upphafi leiks. Álftanes komst tíu stigum yfir 8-18 sem neyddi Grindvíkinga í að taka leikhlé.

Í fjarveru Justin James var það á herðum Harðar Axels Vilhjálmssonar og David Okeke að setja stig á töfluna til að byrja með. Þeir svöruðu kallinu og gerðu fyrstu 17 af 22 stigum liðsins. Gestirnir voru tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 20-30.

Álftnesingar voru í bílstjórasætinu í öðrum leikhluta. Annar leikhluti byrjaði á að Haukur Helgi Pálsson fékk opið þriggja stiga skot sem kveikti í honum og Haukur var á eldi sem endaði með að hann gerði fyrstu átta stig Álftaness.

Eftir að Álftanes komst nítján stigum yfir 30-49 svöruðu Grindvíkingar fyrir sig enda ekki vanir því að gefast upp. Vendipunkturinn var þriggja stiga karfa Ólafs Ólafssonar sem kveikti í stuðningsmönnum Grindavíkur og stemmningin minnti á leik djúpt inn í úrslitakeppninni þegar Ólafur setti annan þrist skömmu síðar.

Staðan í hálfleik var 46-54.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og var í jafnvægi. Augnablikið var í lausu lofti og Álftnesingar gripu gæsina og gerðu sex stig í röð sem varð til þess að Grindvíkingar þurftu að taka leikhlé ellefu stigum undir 56-67.

Grindavík svaraði áhlaupi Álftnesinga með átta stigum í röð með Jeremy Pargo fremstan í fararbroddi og staðan var 64-70 þegar haldið var í síðustu lotu.

Síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Grindvíkingar komust yfir í fyrsta skipti í leiknum 86-84 þegar þrjár mínútur voru eftir. 

Það var síðan Dúi Þór Jónsson sem setti niður tveggja stiga skot og kom Álftanesi yfir þegar tæplega sex sekúndur voru eftir. Pargo fékk lokaskotið en klikkaði og Álftnesingar fögnuðu tveggja stiga sigri 92-94. 

Atvik leiksins

Sigurkarfa Dúa Þórs Jónssonar var óumdeilanlega atvik leiksins. Að sögn Dúa var lagt með að finna Okeke nálægt körfunni en Grindvíkingar féllu niður á hann og þá opnaðist gluggi fyrir Dúa sem nýtti tækifærið.

Stjörnur og skúrkar 

Dúi var stjarna leiksins eftir að hafa verið með ís í æðunum og gert sigurkörfuna. Dúi gerði tíu stig á 26 mínútum í kvöld.

Í fjarveru Justin James voru aðrir leikmenn sem tóku að sér stærra hlutverk og stigu upp. David Okeke var frábær og gerði 28 stig. Hörður Axel Vilhjálmsson var einnig öflugur og gerði ótrúlega körfu þar sem hann var nánast sitjandi í stöðunni 81-81. 

Kristófer Breki Gylfason, leikmaður Grindavíkur, spilaði tæplega nítján mínútur og gerði nánast ekki neitt nema safna villum. Kristófer endaði með 0 stig, 0 fráköst og 1 stoðsendingu og með hann á gólfinu tapaði Grindavík með nítján stigum. 

Dómararnir [5]

Dómarar kvöldsins voru Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Birgir Örn Hjörvarsson. 

Það var erfitt að lesa í línu kvöldsins sem var stundum óskýr en hafði þó engin úrslitaáhrif á leikinn. Það var þó umdeilt atvik þegar Hörður Axel skoraði þriggja stiga körfu sitjandi þar sem dómararnir hefðu átt að skoða atvikið í endursýningu en gerðu það ekki. 

Það kom upp áhugavert atvik undir lok fyrri hálfleiks þar sem klukkan fór ekki af stað þegar 3.1 sekúnda var eftir og Grindavík náði frákasti úr víti og Deandre Kane setti boltann ofan í en eftir fund var niðurstaðan að karfan myndi ekki standa og fyrri hálfleikur kláraðist. Lítið við því að segja. 

Stemning og umgjörð

Það var falleg stund fyrir leik þar sem  klappað í mínútu fyrir Ólafi Þór Jóhannssyni sem féll frá á dögunum. Ólafur var faðir Jóhanns Þórs Ólafssonar, þjálfara Grindavíkur og Ólafs Ólafssonar, fyrirliða Grindavíkur.

„Stóðum af okkur storminn“

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var ánægður með sigur kvöldsins Vísir / Anton Brink

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga var afar ánægður eftir tveggja stiga sigur gegn Grindavík 92-94. 

„Þetta var flott frammistaða. Það var rosaleg einbeiting í liðinu í 40 mínútur. Við byrjuðum sjóðandi heitir og gripum taktinn í leiknum og hægt og rólega náðu þeir að mjaka sér inn í leikinn og spiluðu frábæra vörn sem varð til þess að við vorum að tapa boltanum,“ sagði Kjartan Atli og hélt áfram.

 „Við stóðum af okkur storminn og það var ótrúlega sætt að sjá hvernig liðið stóð af sér þennan Grindavíkur-storm. Þetta var fimmti leikurinn okkar gegn þeim frá því við komum upp og þetta hafa alltaf verið naglbítar og við vissum að þetta yrði naglbítur í kvöld og maður er stoltur af liðinu.“

Lokamínúturnar voru æsispennandi og að mati Kjartans snerist þetta um hvort liðið myndi eiga síðasta höggið.

„Þetta snerist um hvort liðið myndi eiga síðasta höggið. Dúi gerði mjög vel og kom sér í góða stöðu og tók skot sem honum líður vel með að taka og þetta var vel framkvæmt hjá honum.“

Álftanes spilaði án Bandaríkjamannsins Justin James. Aðspurður út í hvað hann yrði lengi frá sagði Kjartan að það yrði ekki langur tími.

„Við reiknum með honum nokkuð fljótt til baka. Við tökum þetta eins og með Dúa þar sem við erum varkárir með meiðslin og við viljum að menn jafni sig alveg,“ sagði Kjartan Atli að lokum. 

„Svekkjandi að hafa ekki náð að klára þetta“

Jóhann Árni Ólafsson stýrði Grindavík í kvöld í fjarveru nafna síns. UMFG

Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var afar svekktur eftir tveggja stiga tap gegn Álftnesingum á heimavelli.

„Það var svekkjandi að hafa ekki náð að klára þetta. Þeir voru að hitta rosalega vel og þeir fundu það sem þeir vildu og voru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna ásamt því vorum við í vandræðum með Okeke. Við náðum að laga varnarleikinn og þá kom sóknin með og þá fór munurinn hratt niður og síðan var þetta bara 50-50 undir lokin,“ sagði Jóhann Árni í viðtali eftir leik.

Justin James, Bandaríkjamaður Álftnesinga, var ekki með en Jóhann taldi ekki að um neitt vanmat hafi verið að ræða.

„Við töluðum um það að það er þekkt í íþróttasögunni að þegar að besti leikmaður liðsins dettur út þá koma aðrir og stíga upp og hitt liðið myndi fara á hælana. Við töluðum um að það kæmi okkur ekkert við og það skipti okkur ekki máli hverjir væru að spila í hinu liðinu.“

Aðspurður út í varnarleik Grindavíkur í sigurkörfu Dúa var Jóhann nokkuð sáttur með varnarleikinn beint eftir leik.

„Þetta var skot yfir stóran mann hjá okkur sem var vel gert hjá honum og síðan fengum við skot frá manni sem var með 39 stig í leiknum en í þetta skipti settu þeir stóru skotin ofan í en ekki við,“ sagði Jóhann Árni að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira