Handbolti

Svaðil­för og svik um­boðs­manns: „Þeir eigin­lega bara gengu fram af mér“

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Kristjánsson hefur stýrt landsliði Barein nú um árabil
Aron Kristjánsson hefur stýrt landsliði Barein nú um árabil Vísir/Ívar

„Ég sagði vinstri og í ein­hverjum til­fellum fóru þeir þá til hægri,“ segir Aron Kristjáns­son hand­boltaþjálfari sem er svo til nýkominn af ansi viðburðaríku og ævintýra­legu HM í hand­bolta sem lands­liðsþjálfari Bar­ein. Það gæti hafa verið hans síðasta stór­mót í starfi þar.

Lands­lið Bar­ein er í ákveðnum upp­byggingarfasa og átti að spila á yngri mönnum á HM en undir­búningur mótsins gekk ekki áfalla­laust hjá Aroni sem missti út sex leik­menn, flesta byrjunar­liðs­menn. Þá var skipu­lagið á ferða­lagi og veru liðsins á HM ekki eins og best verður á kosið.

„Þeir eigin­lega bara gengu fram af mér í skipu­laginu á því,“ segir Aron í sam­tali við íþrótta­deild. „Ég held að við höfum ferðast um hálfa Evrópu og það eyðilagði undir­búnings­dagana, fækkaði æfingar­dögunum sem við hefðum geta nýtt okkur til að koma þessum unga og reynda mann­skap aðeins saman. Okkur fannst við vera á ágætis leið þegar að við unnum Katar í tveimur æfinga­leikjum í byrjun janúar. Svo förum við til Dan­merkur og þá eru þessir ungu og óreyndu slegnir niður á jörðina í tveimur æfinga­leikjum á móti gríðar­lega sterku dönsku liði.“

Úr leik Barein við silfurlið Króata á HMVísir/Getty

„Ýmislegt sem ég var ósáttur með“

Svo gekk ýmis­legt á við komuna til Króatíu þar sem að liðið spilaði á HM.

„Það var ekki Halal matur á hótelinu, þeir lentu í smá svikum af ákveðnum um­boðs­manni sem var að skipu­leggja þetta fyrir þá. Þeim er vor­kunn með það en þetta gerði það samt að verkum að þetta setti okkur í mjög erfiða stöðu.“

Vand­ræðin utan vallar ekki að hjálpa til með að byggja upp stemninguna á stór­mótinu sjálfu.

„Það var ýmis­legt sem ég var ósáttur með. Ég sagði vinstri og í ein­hverjum til­fellum fóru þeir þá til hægri í staðinn fyrir að gera það sem að ég bað um. Ég var ekkert sér­stak­lega ánægður með það.“

Þrátt fyrir allt það sem gekk á var Bar­ein ekki langt frá því að komast í milli­riðla mótsins en endaði á að fara í For­seta­bikarinn.

Hart tekist áVísir/Getty

Búinn að mynda sér skoðun á framhaldinu fyrir mót

Samningur Arons við hand­knatt­leiks­sam­band Bar­ein er runnin út og óvist hvort fram­hald verði á sam­starfinu.

„Ég var nú eigin­lega búinn að mynda mér skoðun fyrir mót á því hvað ég ætla að gera í þessu sam­hengi en vildi fyrst klára það með þeim áður en ég gef eitt­hvað út varðandi það. Þeir gengu aðeins fram af mér fyrir þetta mót. Þetta hefur verið fínn tími, verið mjög skemmti­legt og við náð mjög góðum árangri. 

Aron hvetur sína menn áfram frá hliðarlínunniVísir/Getty

„Fórum á Ólympíu­leika með liðið og náum áttunda sæti þar, náum sex­tánda sæti á síðasta HM, búnir að vinna til margra verð­launa á Asíumótum, silfur og brons­verð­laun. Þetta er búið að vera ótrú­lega skemmti­legt og lær­dóms­ríkt, nú er bara að koma heim, draga andann og klára þessi mál með þeim.“

En ég ræð það svona á orðum þínum að það sé kannski von á breytingu. Þú vilt ekki gefa neitt út um það?

„Ég vil ekki gefa neitt út. Það gæti hugsast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×