Upp­gjörið: KR-Valur 89-96 | Fimmti sigur Vals í röð kom í fram­lengingu

Andri Már Eggertsson skrifar
Valsmenn unnu KR á Meistaravöllum og hafa ekki tapað leik eftir að Kristófer Acox kom til baka úr meiðslum
Valsmenn unnu KR á Meistaravöllum og hafa ekki tapað leik eftir að Kristófer Acox kom til baka úr meiðslum Vísir/Anton Brink

Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram eftir endurkomu Kristófers Acox og unnu í kvöld sjö stiga sigur á KR, 96-89, í framlengdum Reykjavíkurslag í Vesturbænum í Bónus deild karla í körfubolta. Valsemnn hafa nú unnið fimm leiki í röð og hafa komið sér vel fyrir í fjórða sætinu.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í þessum hörku leik. Í framlengingunni snögg kólnuðu KR-ingar og reynslumiklir Valsmenn kláruðu þetta með Kára Jónsson í fararbroddi.

Það var hart tekist á í leik kvöldsinsVísir/Anton Brink

Það var frábær stemning í húsinu og Reykjavíkurslagurinn fór frábærlega af stað. KR-ingar skutu ljósin út til að byrja með og voru með yfir 70 prósent nýtingu fyrstu fimm mínúturnar. Gestirnir frá Hlíðarenda voru þó ekki með mikið síðri nýtingu og misstu KR-inga ekki of langt fram úr sér.

Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta jafnaðist leikurinn út. Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, tók fyrsta leikhlé kvöldsins þegar Valur komst yfir í fyrsta sinn í leiknum 14-15. KR-ingar brugðust vel við leikhléi Jakobs og gerðu átta stig í röð. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-20.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður KR, var með þrefalda tvennu í kvöldVísir/Anton Brink

Ólíkt fyrsta leikhluta voru það Valsarar sem byrjuðu annan leikhluta betur. Joshua Jefferson var stigalaus í fyrsta leikhluta en minnti á sig í öðrum leikhluta með því að gera sex stig á stuttum tíma.

Hvorugt liðið bauð upp á flugeldasýningu í fyrri hálfleik og skotnýtingin fór bara niður á við. Valsmenn enduðu á að gera sex stig á síðustu sex mínútum fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 39-37.

Adam Ramstedt, leikmaður Vals, í baráttunniVísir/Anton Brink

Þriðji leikhluti virtist vera að þróast í sömu átt og annar leikhluti þar sem það var lítið skorað og skemmtanagildið var ekki mikið í töpuðum boltum og misheppnuðum skotum.

Eftir því sem leið á þriðja leikhluta losnaði um eitthvað hjá báðum liðum sem fóru að spila betur og hitta töluvert betur heldur en áður og leikurinn varð hraðari fyrir vikið. Gestirnir enduðu þriðja leikhluta á að gera sextán stig gegn aðeins fjórum og voru sex stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta 63-69.

Linards Jaunzems, leikmaður KR, setti 20 stig í kvöldVísir/Anton Brink

KR-ingar settu tóninn í fjórða leikhluta og byrjuðu á að gera sjö stig í röð sem varð til þess að Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, neyddist til þess að brenna leikhlé eftir þrjár mínútur.

Valsmenn settu stór skot ofan í sem varð til þess að gestirnir knúðu fram framlengingu. Valsmenn gerðu fimm körfur í fjórða leikhluta sem voru allt þriggja stiga körfur. Staðan eftir fjórða leikhluta var 84-84.

Eftir dapran fjórða leikhluta sýndu Valsmenn að þeir áttu einn gír inni. Gestirnir gerðu fyrstu fimm stigin sem sló KR-inga út af laginu sem varð til þess að KR gerði aðeins tvö stig á fjórum mínútum. Valur vann á endanum 89-96.

Kristófer Acox hefur ekki tapað leik eftir að hann sneri til baka úr meiðslumVísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Adam Ramstedt byrjaði á að setja tvö vítaskot ofan í og Kári Jónsson fylgdi því eftir í næstu sókn Vals með því að setja niður þvingað þriggja stiga skot og kom Val fimm stigum yfir 84-89 sem var of stór biti fyrir KR-inga.

Stjörnur og skúrkar

Kári Jónsson setti liðið á bakið í framlengingunni og gerði átta stig sem var þremur stigum meira en allt KR liðið. Kári endaði með 21 stig en hann tók einnig 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. 

Kári Jónsson fór hamförum í framlengingunniVísir/Anton Brink

Joshua Jefferson reyndist einnig mikilvægur fyrir Valsmenn. Hann setti stór skot ofan í þegar mest á reyndi í fjórða leikhluta og endaði með 20 stig.

Veigar Áki Hlynsson, leikmaður KR, náði sér ekki á strik í kvöld en hann gerði 4 stig og á þeim 33 mínútum sem hann var inni á vellinum tapaði KR með tíu stigum. 

Dómararnir

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Bjarni Hlíðkvist KristmarssonVísir/Anton Brink

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson

Það var áhugavert atvik í leiknum þar sem troðsla Þorvalds Orra Árnasonar fékk ekki að standa þar sem hann hékk of lengi á hringnum sem hafði áhrif á að boltinn endaði ofan í að mati dómara. Atvik sem maður sér ekki oft og dómararnir voru vissir í sinni sök þrátt fyrir mótmæli KR-inga.

Þorvaldur Orri Árnason hefði betur sleppt takinu í tæka tíðVísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Það er alltaf gaman þegar fólk hugsar út fyrir boxið til þess að bæta umgjörðina. KR-ingar gerðu það svo sannarlega í kvöld og uppskáru með frábærri mætingu.

Áhorfendur gátu keypt sérstaka rómantíska miða á leikinn þar sem fylgdi með hvít rós í tilefni Valentínusardagsins. Rósirnar voru frá Blómatorginu.

 „Framlenging snýst oft um hverjir byrja betur“

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, á hliðarlínunni í leik kvölsinsVísir/Anton Brink

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var svekktur eftir tap í framlengingu.

„Þetta var gríðarlega sárt. Mér fannst við mjög flottir mest allan tímann. Það kom kafli í þriðja leikhluta þar sem við misstum þá frá okkur varnarlega annars vorum við flottir allan tímann. Mér fannst við með yfirhöndina undir lokin í fjórða leikhluta en þeir eru með góða leikmenn og settu stór skot og jöfnuðu en heilt yfir var þetta ágætis frammistaða,“ sagði Jakob í viðtali eftir leik.

Jakob var ekki ánægður með sína menn í þriðja leikhluta þar sem Valur endaði á að gera sextán stig gegn aðeins fjórum stigum KR.

„Í minningunni voru Kristófer Acox og Kári Jónsson að finna hvorn annan vel. Við vorum ekki nógu tengdir en við löguðum það sem ég var ánægður með.“

Valsmenn áttu fyrsta höggið í framlengingunni og Jakob viðurkenndi að það reyndist KR-ingum erfitt.

„Framlenging snýst oft um hverjir byrja betur. Þetta er stuttur tími og allir eru þreyttir og oft er það liðið sem byrjar betur sem vinnur. Menn eru þreyttir og að lenda undir í framlengingu er erfitt andlega og hrós á Val,“ sagði Jakob að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira