Upp­gjörið: ÍR - Njarð­vík 91-95 | Sterkur gestasigur eftir æsi­spennandi leik í Skógarselinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Álftanes - Njarðvík Bónus Deild Vetur 2025
Álftanes - Njarðvík Bónus Deild Vetur 2025

Njarðvík sótti sterkan sigur í Skógarselið í átjandu umferð Bónus deildar karla. 91-95 varð niðurstaðan gegn ÍR eftir hörkuspennandi leik sem réðst ekki fyrr en á lokamínútunni. Njarðvíkingar styrkja þar með stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar en ÍR-ingar missa af mikilvægum stigum í baráttunni um úrslitakeppnissæti. 

Sterk byrjun gestanna

ÍR byrjaði leikinn algjörlega á afturfótunum, hittu varla úr skoti og hleyptu Njarðvíkingum allt of auðveldlega að sinni körfu. Gestirnir skoruðu fyrstu níu stigin. Borche Illievski, þjálfari ÍR, bað svo um leikhlé í stöðunni 2-13.

Þriggja stiga regn og önnur orka í öðrum leikhluta

Frábær hittni í þriggja stiga skotum var hins vegar það sem hélt heimamönnum á lífi, síðustu tvær mínúturnar tvöfölduðu þeir svo vörnina á Dominykas Milka og stöðvuðu blæðinguna. Staðan 20-29 eftir fyrsta leikhluta.

Það var síðan allt önnur orka hjá ÍR-ingum í öðrum leikhluta, meðan Njarðvíkingar voru ekki eins beittir og í upphafi. ÍR-ingar gengu á lagið, héldu áfram að láta þristunum rigna, og fóru með jafna stöðu inn í hálfleik, 51-51.

Jafn leikur alveg til enda

Í þriðja leikhlutanum var baráttan afar jöfn. ÍR-ingar byrjuðu mjög sterkt og tóku sjö stiga forystu en Njarðvíkingar voru aldrei langt undan, áttu síðan gott áhlaup og leiddu með tveimur stigum fyrir lokakaflann.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhlutann sterkt og náði fimm stiga forystu en ÍR var ekki langt undan og eiginlega ekkert skildi liðin að.

Réðst á klúðri Kavas og svari Khalil

Spennan var gríðarleg síðustu mínúturnar og svo virtist sem Jacob Falko ætlaði að vinna leikinn einn síns liðs fyrir ÍR, sýndi snilldartakta og tók forystuna fyrir þá þegar tvær mínútur voru eftir.

Njarðvík tókst hins vegar að komast aftur yfir, Matej Kavas klikkaði síðan á mikilvægu þriggja stiga skoti sem gerði eiginlega út af við leikinn því Khalil Shabbazz setti þrist niður í næstu sókn Njarðvíkur.

ÍR-ingar reyndu eins og þeir gátu að jafna aftur eftir það, en þurftu á endanum að sætta sig við 91-95 tap.

Stjörnur og skúrkar

Jacob Falko og Matej Kavas báru sóknarleik ÍR á herðum sér, stórkostlegir báðir tveir. Oscar Jorgensen öflugur einnig, setti fimm þrista af bekknum.

Kavas er hins vegar skúrkur kvöldsins, eins hart og það hljómar eftir frábæra frammistöðu, þá klikkaði hann á mikilvægasta skoti leiksins fyrir ÍR.

Khalil Shabazz og Dominykas Milka allt í öllu hjá Njarðvíkingum. Milka óstöðvandi í upphafi og Khalil setti körfuna sem vann leikinn. Mario Matasovic átti nokkrar góðar troðslur þess á milli.

Dómarar

Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll og Jakob Árni mynduðu þríeyki kvöldsins. Ekkert út á þeirra frammistöðu að setja. Vel haldið utan um hlutina.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin algjörlega til fyrirmyndar, ekki yfir neinu að kvarta. Matur fyrir mestu smekksmenn og allt ískalt úr kælinum.

Stemningin alveg sturluð. Ljósin dimmt fyrir leik og leikmenn ÍR kynntir inn með úrslitakeppnisbrag.

Ghetto Hooligans veifuðu glæsilegum fána með mynd af þjálfaranum Borche Illievski, börðu á trommurnar allan tímann og létu vel í sér heyra.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira