Íslenski boltinn

Devine til Blika og má spila í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katherine Devine spilaði með Vanderbilt frá 2020 til 2024.
Katherine Devine spilaði með Vanderbilt frá 2020 til 2024. Getty/Vanderbilt Athletics

Kvennalið Blika hefur fundið markvörð í stað Telmu Ívarsdóttur sem samdi á dögunum við Rangers í Skotlandi. Nýi markvörðurinn var að klára farsælan feril í bandaríska háskólaboltanum.

Breiðablik hefur náð samkomulagi við bandaríska markvörðinn Katherine Devine, um að spila með liðinu á komandi leiktíð í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Kate er 23 ára gömul og kemur til Breiðabliks frá Vanderbilt-háskólanum í Nashville, þar sem hún hefur spilað við góðan orðstír síðan árið 2020.

Devine spilaði 53 leiki með Vanderbilt og fékk á sig 55 mörk eða rúmt eitt mark í leik. Hún hélt fimmtán sinnum marki sínu hreinu og varði 75 prósent skota sem á hana komu. Devine varði alls 166 skot í leikjum 53 eða 3,1 að meðaltali í leik.

Kate er nú þegar komin með leikheimild með Breiðablik og getur því staðið í marki Íslandsmeistaranna, þegar þær mæta Stjörnunni á Kópavogsvelli, klukkan sjö í kvöld.

Devine sagði í viðtali á miðlum Blika að þjálfari hennar hjá Vanderbilt hafi spilað á Íslandi og það eigi sinn þátt í að hún er komin til Íslands. Þar erum við væntanlega að tala um aðstoðarþjálfarann Stacey Balaam sem spialði með ÍR sumarið 2009.

Devine er búin að vera hér á landi í viku og gæti spilað sinn fyrsta leik á eftir.

Hér fyrir neðan má sjá stutt viðtal við Devine og nokkur tilþrif með henni í leikjum Vanderbilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×