Innlent

Vill kanna hvort dýraníð verði til­kynnt til Neyðar­línunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, vill skerpa á ferlum þegar kemur að tilkynningum um dýraníð
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, vill skerpa á ferlum þegar kemur að tilkynningum um dýraníð Vísir/Ívar Fannar

Atvinnuvegaráðherra hefur óskað eftir því við dómsmálaráðherra að kanna möguleikann á því að Neyðarlínan tæki við tilkynningum frá almenningi í gegnum 112 þegar það verði vart við dýr í neyð og það sé Neyðarlínan sem vinni úr umræddum tilkynningum og komi boðum til lögregluyfirvalda.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 voru sýnd sláandi myndbönd af meintu dýraníði hrossaræktenda á suðvesturhorninu. Hostaræktandi sást þrengja verulega að hálsi folalds sem hann var að setja múl á. Þá barði annar ræktandi annað hross sem hann var að teyma. Forstjóri Matvælastofnunar hefur sagt að skoða þurfi hvort taka megi betur á móti tilkynningum um dýraníð í kjölfar málsins.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, segir að auðvitað sé markmiðið að koma í veg fyrir dýraníð og því þurfi að vera hægt að tilkynna um það. 

Neyðarlínan komi boðum á lögreglu

„Ég sá þetta tilvik og brá við og lít þetta auðvitað alveg gríðarlega alvarlegum augum. Það eru að koma of oft upp tilvik þar sem fólk er uppvíst að því að farið sé illa með dýr. Það er auðvitað markmiðið að koma málum þannig að það komist í veg fyrir þetta eins og kostur er,“ segir Hanna Katrín sem hefur farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að taka við tilkynningum vegna dýra í neyð.

„Það sé þá Neyðarlínan sem samkvæmt samningi vinni úr þessu og komi boðunum til lögreglu. Þetta er einfaldasta leiðin til þess að fólk geti brugðist við og komið dýri til bjargað og það þurfi ekki að velkjast í vafa um hvert eigi að hafa samband.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×