Erlent

Evrópskir ráða­menn funda vegna Trumps

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands. EPA/NEIL HALL

Evrópskir ráðamenn, þar á meðal Emmanuel Macron, forseti Frakklands og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, mæta á „neyðarfund“ í næstu viku. Fundarefnið er ákvörðun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að taka yfir friðarviðræður á milli Úkraínu og Rússlands. 

Samkvæmt heimildum The Guardian hefur ráðamönnum Þýskalands, Ítalíu, Bretlands og Póllands verið boðið á fundinn ásamt Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. 

Ráðamennirnir eru nú saman komnir á öryggisráðstefnu í München þar sem friður milli Úkraínu og Rússlands hefur mikið verið ræddur.

Keith Kellogg, erindreki Donalds Trump, er einnig þar staddur en í ræðu sinni fyrr í dag sagði hann það ólíklegt að evrópsk lönd fengju sæti við borðið í friðarviðræðum Úkraínu og Rússlands. 

Þá hafa Trump og Vladimir Pútín talað saman í síma þar sem þeir sammæltust um að hefja fljótt friðarviðræður. Á blaðamannafundi eftir símtalið sagði Trump að Úkraína stæði ekki jafnfætis Bandaríkjamönnum og Rússum í friðarviðræðunum.

Samkvæmt umfjöllun BBC hafa munu hátt settir embættismenn Hvíta hússins hitta samningamenn Rússa og Úkraínumanna í Sádí-Arabíu á næstu dögum. 

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði á öryggisráðstefnunni í München í dag að Úkraínumenn munu ekki framfylgja samkomulagi sem þeir hafa enga aðkomu að. 

Selenskí hefur áður sagt að hann óttaðist að Úkraínumenn yrðu skyldir út undan í friðarviðræðum og virðast evrópsku ráðamennirnir deila þeim ótta.

Sjá nánar: „Kallar eftir evrópskum her“

Þá hafa Bandaríkjamenn beðið ráðamenn í Evrópu um ítarlegt yfirlit yfir það hvað ríkin hafi fram að bjóða í öryggistryggingu handa Úkraínumönnum, svo sem vopn og fjölda hermanna.

Ónefndur diplómati sagði í umfjöllun The Guardian að það liti út fyrir að Evrópa ætti að sjá um að viðhalda frið milli ríkjanna en fái ekkert að hafa með samkomulagið að gera. Á meðan fengi Donald Trump helming af öllum fágætum steintegundum frá Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×