Fótbolti

Mætti of seint og missti sæti sitt í byrjunar­liði Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jules Kounde fékk ekki að spila í mikilvægum leik Barcelona í toppbaráttunni í gærkvöldi.
Jules Kounde fékk ekki að spila í mikilvægum leik Barcelona í toppbaráttunni í gærkvöldi. Getty/Image Photo Agency

Það er eins gott að mæta á réttum tíma á liðsfundi hjá Hansi Flick, þjálfara Barcelona. Barcelona komst á topp spænsku deildarinnar í gærkvöldi en það vantaði einn fastamann í byrjunarliðið.

Jules Koundé var ekki í byrjunarliði liðsins og eftir leikinn staðfesti Flick að það hafi verið vegna þess að hann mætti of seint á liðsfund.

Þetta er líka ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist hjá Koundé. Hann missti líka af leik í október af sömu ástæðu.

„Fyrir hvern leik þá eru kannski tveir til þrír fundir sem leikmenn þurfa að mæta á,“ sagði Hansi Flick eftir leikinn.

„Það er mjög mikilvægt að allir leikmennirnir mæti á þá. Það er ekki erfitt að gera það. Þetta snýst ekki bara um mig heldur um að bera virðingu fyrir liðsfélögunum, félaginu og stuðningsmönnunum,“ sagði Flick.

„Ég vil ekki segja meira því ég vil ræða betur við hann. Hann var of seinn. Sú regla er skýr og þess vegna gat hann ekki byrjað þennan leik,“ sagði Flick.

Koundé hefur annars byrjað 34 af 37 leikjum Barcelona í öllum keppnum á tímabilinu.

Barcelona vann leikinn 1-0 á vítaspyrnumarki Robert Lewandowski. Liðið er nú í toppsætinu á betri árangri í innbyrðis leikjum á móti Real Madrid en liðin eru með jafnmörg stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×