Neytendur

Lof­orð um milljarða í vasa neyt­enda „fuglar í skógi“

Árni Sæberg skrifar
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Einar

Formanni Neytendasamtakanna hugnast ekki þreifingar um samruna Arion banka og Íslandsbanka. Hann segir ótækt að draga úr samkeppni og efast um fögur fyrirheit um að samlegðaráhrif skili sér til neytenda.

Stjórn Arion banka sendi stjórn Íslandsbanka erindi á föstudag þar sem áhuga á samruna bankanna tveggja var lýst yfir. Sameinaður banki yrði sá stærsti á markaði hér á landi, um þriðjungi stærri en Landsbankinn.

Breki Karlson er formaður Neytendasamtakanna, áformin hugnast honum ekki.

„Það er alveg nógu lítil samkeppni á markaði nú þegar, að ekki þurfi að draga úr henni enn frekar með því að fækka viðskiptabönkunum úr þremur í í tvo. Þar yrði annar þeirra yfirgnæfandi risi á íslenskum markaði. En það sem er kannski athyglisverðast í þessu er að í rauninni er atvinnulífið að segja, með kröfum um að skera sig úr samkeppni, að íslenska hagkerfið sé of lítið fyrir samkeppni. Það er mjög athyglisverð afstaða og eitthvað sem verður að skoða betur.“

Efla þurfi Samkeppniseftirlitið

Þegar komi til kastanna verði það Samkeppniseftilitið sem skeri úr um hvort bönkunum verði heimilað að renna saman.

„Þess vegna er mikilvægt að við höfum sterk samkeppnisyfirvöld sem geta tekið á svona stórum samrunum, eins og þessi myndi verða ef af yrði, og jafnframt sinnt sínum daglegu skyldum. Þeim er í dag gert mjög erfitt að sinna þeim skyldum sem Samkeppnisyfirlitið þarf að gera. Þannig að það þarf að stórefla það.“

Efast um loforð um „fugla í skógi“

Í tilkynningu Arion banka til Kauphallar á föstudag sagði að Arion banki væri reiðubúinn að vinna náið með Samkeppniseftirlitinu til að tryggja að fimm milljarðar króna að lágmarki, af þeim árlega sparnaði sem myndi nást fram við samruna bankanna, skilaði sér til neytenda.

„Yfir tíu ára tímabil næmi beinn sparnaður íslenskra heimila því 50 milljörðum króna fyrir utan annan ávinning og sparnað sem af samrunanum myndi hljótast,“ sagði í tilkynningunni.

„Þessar fullyrðingar eru náttúrulega bara fuglar í skógi. Ef það væri raunverulegur vilji til að skila einhverju til neytenda, þá má alveg skila einhverju af þessum hagnaði, hundrað milljörðum á ári úr kerfinu. Það mætti skila honum til neytenda, það væri hægðarleikur. Við fyrstu sýn sé ég ekki að það að minnka samkeppni skili sér til neytenda. Því meiri samkeppni, því betur eru neytendur tryggðir.“

Engin samkeppni sé þó fyrir samruna

Breki segir þó mega benda á það í þessu samhengi að meðal stóru viðskiptabankanna þriggja virðist enginn munur vera.

„Það er engin samkeppni þarna á milli. Það er enginn ódýri bankinn, það er enginn sem býður betri þjónustu. Það er enginn munur á þessum bönkum þremur, allavega engin leið fyrir neytendur að gera sér grein fyrir því hvort það sé einhver banki sem veitir betri kjör en anna. En ég átta mig ekki á þessari fullyrðingu að minni samkeppni komi sér betur fyrir neytendur, ég er bara ekki sammála henni.“

Hvað hangir á spýtunni?

Loks veltir Breki því fyrir sér hvort eitthvað annað hangi á spýtunni en raunverulegur áhugi til að sameina bankana.

„Það er strax komin umræða um þessar álögur sem bankarnir telja séu aukalega á þeim umfram aðra banka í nágrannalöndunum. Maður sér að bæði Íslandsbanki og Arion banki hafa hækkað mjög í verði í gær á markaði. Þannig að það gætu verið allt aðrar ástæður þarna að baki en raunverulegur vilji til að sameinast.“

Gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hækkaði um 3,5 prósent í gær og hlutabréfa Arion banka um 2 prósent. Velta með bréfin nam 2,7 milljörðum, þar af 2,2 milljörðum bara með bréf í Arion banka. Gengi bréfa beggja banka hefur lækkað lítillega það sem af er degi.


Tengdar fréttir

Banka­bréfin hækka vegna áhuga á risa­sam­runa með verulega sam­legð

Umtalsverð utanþingsviðskipti voru með hlutabréf allra fjármálafyrirtækja í Kauphöllinni og hækkaði gengi þeirra við opnun markaða í morgun eftir að Arion banki kunngjörði áhuga sinn fyrir helgi að sameinast Íslandsbanka. Þótt óvíst sé hvort þau viðskipti verði að veruleika vegna samkeppnislegra hindrana þá er ljóst að árleg heildarsamlegð af sameiningu bankanna, einkum með mun minni rekstrarkostnaði og bættum fjármögnunarkjörum, yrði að lágmarki vel á annan tug milljarð.

Fjölmargar hindranir yrðu á vegi mögu­legs risa­sam­runa á banka­markaði

Mögulegur samruni Íslandsbanka og Arion, sem myndi búa til stærsta banka landsins og skapa mikla samlegð með aukinni stærðarhagkvæmni, yrði í senn flókinn og erfiður út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, meðal annars þegar kæmi að stöðu sameinaðs banka á sviði innlánastarfsemi, eignastýringarmarkaðar og útlánum til fyrirtækja. Það var mat Bankasýslunnar árið 2020, sem þá hélt utan um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, að af samruna þessara banka gæti ekki orðið nema með sérstökum lögum en á það hefur verið bent að eigi að tryggja virka samkeppni á millibankamarkaði, til dæmis viðskipti með gjaldeyri, þurfi að vera að „lágmarki þrjár burðugar“ innlánstofnanir.

Bankarnir byrji í brekku

Sérfræðingur í samkeppnisrétti segir mögulegan samruna Arion banka og Íslandsbanka byrja í brekku hjá Samkeppniseftirlitinu fari hann þangað inn á borð. Hann vill ekki útiloka að samruninn gangi í gegn á endanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×