„Þetta fór betur en á horfðist,“ segir Halldór Ásgeirsson aðalvarðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu í samtali við fréttastofu.
„Þetta virðist ætla að sleppa vel. Það kviknaði í djúpsteikingarpotti á veitingastað. Við erum að klára að slökkva núna,“ segir Halldór.
Hann telur að tjónið á mathöllinni sé óverulegt og segir engan hafa slasast þegar kviknaði í.
„Við erum að reykræsta og tryggja vettvanginn,“ segir Halldór að lokum.
Opna aftur seinnipartinn
„Það verður opnað seinnipartinn í dag,“ segir Valgarð Sörensen einn eigenda mathallarinnar í samtali við fréttastofu.
Hann segir tjónið óverulegt. Það eina sem hafi skemmst sé djúpsteikingarspotturinn sjálfur og það megi þakka skjótum viðbrögðum bæði starfsmanna og slökkviliðs að ekki fór verr.