Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þjóðveginn um Brekknaheiði á Langanesi, sem tengir saman Þórshöfn og Bakkafjörð. Þar er núna gamaldags malarvegur, lítið uppbyggður, með tilheyrandi holum og þjóðvegaryki.
Fyrir þremur árum var lokið við að leggja bundið slitlag á ríflega tuttugu kílómetra kafla um Langanesströnd. Núna á að endurbyggja átta kílómetra langan vegarkafla um Brekknaheiði. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið eftir rúm tvö ár, sumarið 2027.

Vegagerðin gæti haft mikla þýðingu fyrir byggðirnar norðaustanlands. Venjulega þegar ferðamenn fara Hringinn velja flestir að aka þjóðveg eitt um Möðrudalsöræfi milli Egilsstaða og Mývatns. Margir veigra sér við að fara út á malarvegina, eins og með hjólhýsi í eftirdragi.
Með þessum síðasta kafla þvert yfir Langanesið, sem núna á að klára, verður komið bundið slitlag á allan norðausturhringinn. Ráðamenn sveitarfélaga á svæðinu hafa spáð því að vegabæturnar leiði til þess að allir þessir staðir; Vopnafjörður, Bakkafjörður, Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker, sjái fleiri ferðamenn.
Staðkunnugir taka eflaust eftir því að á landakorti í frétt Stöðvar 2 var leiðin milli Vopnafjarðar og Héraðs sýnd um malarveginn yfir Hellisheiði eystri. Bundið slitlag til Vopnafjarðar var hins vegar lagt um Vopnafjarðarheiði árið 2011, eins og rifja má upp í þessari frétt: