Innlent

Ó­vissa um verk­föll eftir frestunarbeiðni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og jafnframt næsti borgarstjóri Reykjavíkur.
Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og jafnframt næsti borgarstjóri Reykjavíkur. Vísir/Arnar

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir fresti til hádegis á morgun til að tilkynna afstöðu sína til innanhússtillögu ríkissáttasemjara. Fresturinn er háður samþykki kennara.

Ríkissáttasemjari lagði fram innanhússtillögu í deilu kennara við sveitarstjórnir og ríkið í dag. Kennarar samþykktu tillöguna en sáttasemjari gaf hinu opinbera frest til klukkan tíu í kvöld til að opinbera afstöðu sína.

Ekki liggur fyrir hvort að samþykki kennara feli það í sér að verkfallsaðgerðum sem hefjast samkvæmt áætlun á morgun verði frestað en aflýsing verkfalla er háð því að samningar náist.

Afstaða kennaranna liggur enn ekki fyrir að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara. Hann segist þó líta svo á að verkföllin skelli á í fyrramálið

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hittist á fundi klukkan átta í kvöld.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í stjórnendur Kennarasambandsins eða fulltrúa samninganefndar ríkisins. Upplýsingafulltrúa KÍ hafa ekki borist neinar upplýsingar en skólameistari Borgarholtsskóla segist ganga út frá því að kennarar þar leggi niður störf á miðnætti.

„Ef að ekkert heyrist þá er í raun og veru verkfall hafið,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. Það eina sem gæti afstýrt verkföllum væri það að samningsaðilar nái saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×