Þetta kemur fram í grein Fincancial Times (áskriftarvefur) en blaðamenn miðilsins hafa kafað djúpt í aftökurnar og telja sig hafa borið kennsl á einn rússneskan hermann sem tók þátt í að taka úkraínska hermenn af lífi á undanförnum vikum.
Rússneskir hermann hafa margsinnis tekið upp á myndbönd aftökur á úkraínskum stríðsföngum frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst þann 24. febrúar 2022. Birtingu slíkra myndbanda hefur þó fjölgað verulega á undanförnum mánuðum og Úkraínumenn hafa einnig fangað aftökur Rússa á stríðsföngum með eftirlitsdrónum.
Sjá einnig: Tóku tíu úkraínska fanga af lífi
Lögreglan í Úkraínu hóf í fyrra 43 rannsóknir vegna aftaka á að minnsta kosti 133 úkraínskum stríðsföngum.
Flestir hafa úkraínsku stríðsfangarnir verið skotnir til bana og annað myndband sýndi þegar rússneskur hermaður skar undan bundnum úkraínskum hermanni og skaut hann svo í höfuðið. Rannsakendur Bellingcat báru kennsl á hermanninn sem skar undan þeim úkraínska og hringdu í hann.
Öðru sinni birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar þeir skáru höfuðið af lifandi úkraínskum hermanni.
Ekki er vitað til þess að rússneskum hermönnum hafi verið refsað fyrir aftökur á úkraínskum stríðsföngum. Rússneska herdeildin sem sökuð hefur verið um að myrða á fimmta hundrað óbreytta borgara í Bucha, í upphafi innrásarinnar, var heiðruð af Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Sagði fanga hafa verið skotna af ástæðu
Í einu nýlegu myndbandi, sem rússneskur hermaður birti upprunalega á Yotube í janúar, tóku rússneskir hermenn upp þegar þeir stilltu sex úkraínskum hermönnum, einum eða tveimur í einu, upp við bjálkahrúgu og skutu þá í bakið.
Hermaðurinn sem birti myndbandið upprunalega, á Youtube-síðu þar sem hann hafði áður birt frumsamin rapplög, heitir samkvæmt FT, Oleg Yakolev. Á myndbandinu sést grímuklæddur maður, sem talinn er vera Yakolev taka beinan þátt í morðunum.
Þegar blaðamenn náðu sambandi við hann, sagðist Yakolev ekki vera maðurinn á myndbandinu. Hann sagði einnig að hermaðurinn grímuklæddi hefði haft ástæðu til að skjóta hina óvopnuðu úkraínsku hermenn.
Úkraínumenn segja hersveitina sem Yakolev tilheyrir hafa verið bendlaða við ýmsa stríðsglæpi. Hún var heiðruð af Pútín í júlí fyrir „hugrekki og hetjuskap“.
Hér að neðan má sjá heimildarmynd sem FT gerði um rannsókn þeirra á aftökunum.