Liðin áttust við í fyrstu umferð Þjóðadeildarinnar, á sama tíma og íslenska landsliðið atti kappi við Sviss. Belgía og Spánn leika í 3. riðli A-deildar, ásamt Portúgal og Englandi sem nú eigast við, en Ísland er í 2. riðli.
Stelpurnar hennar Elísabetar glímdu vissulega við Golíat í kvöld en komust engu að síður í 2-0 í leiknum. Elísabet gaf Mariam Toloba sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliði Belgíu og hún þakkaði fyrir það með marki á 18. mínútu.
Tessa Wullaert kom svo Belgíu í 2-0 þegar aðeins um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en Spánverjum tókst engu að síður að landa sigri.
Claudia Pina minnkaði muninn á 77. mínútu og Lucía García náði að jafna metin á annarri mínútu uppbótartíma. Þá var enn tími fyrir Cristina Martin-Prieto til að skora sigurmarkið, á sjöttu mínútu uppbótartíma, eða í þann mund sem flautað var til leiksloka.
Svíar sóttu þrjú stig til Danmerkur
Í 4. riðli A-deildar vann Svíþjóð 2-1 útisigur gegn Danmörku í grannaslag. Linda Sembrant kom Svíum yfir snemma leiks en Pernille Harder jafnaði tíu mínútum síðar af vítapunktinum. Það var svo Fridolina Rolfö sem skoraði seinna mark Svía á 54. mínútu og þar við sat.