Sport

Lýsandi fékk pökk í and­litið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má var Rob Ray býsna illa útleikinn eftir að hafa fengið pökkinn í andlitið.
Eins og sjá má var Rob Ray býsna illa útleikinn eftir að hafa fengið pökkinn í andlitið.

Íshokkí er íþrótt mikilla átaka og ekki einu sinni sjónvarpsmenn eru óhultir eins og lýsandinn Rob Ray fékk að kenna á um helgina. Hann fékk nefnilega pökk í andlitið.

Atvikið átti sér stað í leik Buffalo Sabres og New York Rangers í NHL-deildinni. Sabres vann leikinn, 8-2.

Undir lok fyrsta leikhluta skaut varnarmaður Rangers, Will Borgen, pökknum yfir auglýsingaskiltin og í aðstöðu lýsenda.

Þar small pökkurinn í andliti Rays sem hafði ekki tíma til að koma sér frá. Honum var brugðið og blótaði í beinni útsendingu eftir að hafa fengið pökkinn í sig.

Gleraugu Rays brotnuðu og hann fékk sár við nefið og vinstra augað. Þá fékk Ray kúlu á höfuðið á stærð við golfbolta.

Þrátt fyrir þetta tók Ray aftur við hljóðnemanum þegar gert hafði verið að sárum hans og hélt áfram að lýsa leiknum. Ray er enda ýmsu vanur eftir að hafa spilað lengi í NHL, lengst af með Sabres.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona lagað hendir Ray en á síðasta ári fékk hann einnig pökk í andlitið þegar hann var að lýsa. Þá, eins og nú, hélt hann áfram að lýsa leiknum þrátt fyrir að hafa fengið þungt högg í andlitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×