Longoria lét ummælin falla eftir 3-0 tap Marseille gegn Auxerre á laugardag þar sem leikmaður Marseille var rekinn af velli.
„Þetta er spilling. Ég hef aldrei séð annað eins. Þið getið skrifað niður það sem ég segi: Pablo Longoria segir þetta vera spillingu. Það er búið að skipuleggja þetta allt. Þetta er planað bak við tjöldin. Þetta er ömurlegt mót. Ef Marseille fær boð um að keppa í Ofurdeildinni munum við samþykkja það strax,“ sagði Longoria.

Ummælin hlutu mikla gagnrýni og nú í dag greindi dómarasambandið í Frakklandi frá því að það myndi lögsækja Longoria. Sökum þess að ummælin væru skaðleg gagnvart stéttinni og ýttu undir áreiti og ofbeldi í garð dómara.
Longoria brást við og dró ummælin til baka í yfirlýsingu sem AFP birti.
„Fólk hefur útskýrt fyrir mér hvað spilling þýðir í Frakklandi, á Spáni hefur það víðtækari merkingu. Ég ætlaði aldrei að gefa í skyn að peningar hafi skipst höndum, það myndi ég aldrei gera. Ég tek það því skýrt fram hér, það er engin spilling í frönskum fótbolta,“ sagði hann meðal annars.
Longoria benti þó á að margt mætti betur fara í ákvörðunum dómara og sagði að margar ákvarðanir hafi fallið gegn Marseille á tímabilinu.
Hann er ekki sá eini þeirrar skoðunar því í síðasta mánuði var Mehdi Benatia, yfirmaður knattspyrnumála hjá Marseille, dæmdur í þriggja mánaða bann af franska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli sem hann lét falla eftir bikartap gegn Lille.