Brahim Diaz var hetja Real Madrid í kvöld þegar liðið vann 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Atletico Madrid í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.
Diaz fékk tækifærið í þessum stóra leik og launaði traustið með mikilvægu sigurmarki.
Munurinn er samt bara eitt mark fyrir seinni leikinn á heimavelli Atletico Madrid í næstu viku.
Atletico var síst verra liðið framan af leik en lenti samt undir strax á fjórðu mínútu. Gestirnir jöfnuðu metin eftir rúmlega hálftíma leik en sigurmarkið kom síðan eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.
Brasilíumaðurinn Rodrygo sýndi snilli sína í fyrsta markinu þegar hann átti frábært hlaup. Hann fékk magnaða sendingu frá Federico Valverde, keyrði á vörnina og skoraði með frábæru skoti.
Það var ekki minna varið í jöfnunarmark Julián Álvarez á 32. mínútu. Álvarez var í þröngri stöðu utarlega í teignum en tókst að komast í skotið sem var stórkostlegt. Boltinn söng í netinu, algjörlega óverjandi fyrr Thibaut Courtois í marki Real.
Brahim Diaz skoraði síðan markið sitt á 55. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið.
Diaz prjónaði sig í gegnum vörnina hjá Atletico á einhvern hátt og skoraði með laglegu skoti. Einstaklingsgæði enn á ný í þessum leik.
Þetta var mjög taktískur leikur og ekki mikið um góð færi. Real Madrid fékk hins vegar gott færi í lok leiksins og mark þar hefði breytt stöðunni mikið. Gestirnir sluppu með skrekkinn og þurfa bara að vinna upp eitt mark í seinni leiknum.