Sverrir fagnaði sigri á móti Alberti í Sambandsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tete fagnar sigurmarki sínu fyrir Panathinaikos í kvöld.
Tete fagnar sigurmarki sínu fyrir Panathinaikos í kvöld. AP/Thanassis Stavrakis

Víkingsbanarnir í Panathinaikos fögnuðu í kvöld naumum 3-2 sigri á móti Fiorentina í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta.

Panathinaikos sló Víkinga út í síðustu umferð og komst í 2-0 eftir aðeins tuttugu mínútna leik í kvöld. Ítalarnir jöfnuðu metin innan fjögurra mínútna og það voru komin fjögur mörk í leikinn á fyrstu 24 mínútunum

Staðan var 2-2 í hálfleik en Tete skoraði sigurmark Grikkjanna á 55. mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Filip Djuricic.

Sverrir Ingi Ingason spilaði allan leikinn með Panathinaikos en Albert Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá Fiorentina eftir 75. mínútna leik.

Það voru þeir Karol Swiderski (5. mínúta) og Nemanja Maksimovic (19. mínúta) sem komu gríska liðinu í 2-0 en Maksimovic lagði líka upp fyrra markið.

Lucas Beltran (20. mínúta) og Nicolo Fagioli (23. mínúta) jöfnuðu metin fyrir Fiorentina í bæði skiptin eftir stoðsendingu frá Robin Gosens.

Seinni leikurinn fer síðan fram á heimavelli ítalska liðsins í næstu viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira