Körfubolti

Cavs fyrstir til að tryggja sig inn í úr­slita­keppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Evan Mobley, einn af lykilmönnum Cleveland Cavaliers, treður með látum í leiknum gegn Miami Heat.
Evan Mobley, einn af lykilmönnum Cleveland Cavaliers, treður með látum í leiknum gegn Miami Heat. ap/Sue Ogrocki

Cleveland Cavaliers er búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppni NBA í körfubolta, fyrst allra liða, þrátt fyrir að tuttugu leikir séu eftir af deildarkeppninni.

Cleveland tryggði sér úrslitakeppnissætið með sigri á Miami Heat í nótt, 112-107. Cavs hafa átt frábært tímabil og eru á toppi Austurdeildarinnar með 52 sigra og tíu töp. Cleveland hefur unnið flesta leiki á tímabilinu. Næst kemur Oklahoma City Thunder með 51 sigur og ellefu töp.

Cavs hefur unnið tólf leiki í röð en þetta er í þriðja sinn á tímabilinu sem það gerist. Aðeins Dallas Mavericks tímabilið 2006-07 hefur afrekað það.

Donovan Mitchell var stigahæstur hjá Cleveland í leiknum í nótt með 26 stig. De'Andre Hunter og Evan Mobley skoruðu sextán stig hvor. Sá síðarnefndi tók einnig þrettán fráköst. Darius Garland var svo með fimmtán stig og tíu stoðsendingar.

Cavs er þegar búið að vinna fleiri leiki en á síðasta tímabili. Þá vann liðið 48 leiki og tapaði 34. Cleveland komst í undanúrslit Austurdeildarinnar en tapaði þar fyrir meisturum Boston Celtics, 4-1.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×