Innlent

Kjara­samningurinn felldur vegna „ör­fárra þátta“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bjarni Ingimarsson er formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Bjarni Ingimarsson er formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Vísir

Fundir með Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS), Sambandi íslenska sveitarfélaga og ríkissáttasemjara hófust aftur í gær eftir að fyrri kjarasamningur náði ekki í gegnum atkvæðagreiðslu félagsmanna LSS.

Félagar Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var á leið í verkfall eftir fimmtán mánuði án árangurs þegar samningar náðust þann 6. febrúar og fór samningurinn í atkvæðagreiðslu meðlima LSS. 54 prósent félagsmanna höfnuðu kjarasamningnum en 45 prósent samþykktu hann og var hann því felldur.

Sambandið ákvað að framkvæma könnun til að sjá af hverju samningurinn var felldur. Fundir með LSS, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkissáttasemjara hófust aftur í gær. 

„Þetta snýr að einhverjum örfáum þáttum. Það er annars vegar þessi launamyndun um betri vinnutíma sem var sett árið 2020 þegar þeir samningar fóru í gegn. Það snýr þá að yfirvinnugreiðslum og fleiru þess háttar,“ segir Bjarni Ingimarsson formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í samtali við fréttastofu.

Málið hafi einnig snúist um í hvað fjármagnið sem standi sambandinu til boða verði notað.

„Svo voru þetta einhver minniháttar textaatriði varðandi viðbótarmenntunar-kaflann,“ segir hann.

Meðlimirnir sóttust eftir lagfæringum á textanum svo ekki komi upp vandamál vegna „minni túlkunaratriða.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka á og ræða, hvað er hægt að gera í þessu.“

Næsti fundur hefur verið boðaður á föstudag í næstu viku. Bjarni segir að tíminn verði nýttur í heimavinnu og unnið verður að tillögum til að leggja fram á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×