Enski boltinn

Óttaðist að á­netjast svefn­töflum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Nörgaard hefur hér fengið spark í leik með Brentford á móti Chelsea á Stamford Bridge
Christian Nörgaard hefur hér fengið spark í leik með Brentford á móti Chelsea á Stamford Bridge AP/Ian Walton

Liðsfélagi Hákonar Rafns Valdimarssonar landsliðsmarkvarðar og fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Brentford hefur rætt opinberlega notkun sína á svefntöflum. Hann segir að allir þurfi að passa sig.

Christian Nörgaard er 31 árs gamall Dani sem hefur spilað með Brenford frá árinu 2019. Hann óttaðist að ánetjast svefntöflum eftir að hann fór að taka þær til að undirbúa sig sem best fyrir útileiki.

Nörgaard segir að vandamálið hafi byrjað þegar hann lék enn með danska liðinu Bröndby.

„Ég mann vel eftir fyrsta skiptinu. Það var fyrir mikilvægan bikarleik í Danmörku og ég fór að hugsa: Ég svaf ekki vel og kem með þær hugsanir inn í leikinn: Hvað ef ég spila ekki vel vegna svefnleysisins,“ sagði Christian Nörgaard við breska ríkisútvarpið.

„Ég fór að hugsa á sömu nótum fyrir næsta leik. Ég verð að sofa vel því annars verður þetta martraðarleikur fyrir mig. Ég þarf að komast í veg fyrir að lenda í sama veseni og síðast,“ sagði Nörgaard.

Hann fór því að taka inn svefntöflur fyrir mikilvæga leiki til að ná að sofa nægilega vel.

Nörgaard gerði sér á endanum grein fyrir vandamálinu og sótti sér aðstoð. Svefnlæknirinn Anna West kom honum til hjálpar og honum tókst að laga þetta án hjálpar svefnlyfjanna.

Aaron Lennon, fyrrum leikmaður Tottenham Hotspur og Everton, kom fram árið 2023 og sagðist hafa farið í sex mánaða meðferð eftir að hafa ánetjast svefntöflum.

Nörgaard hlustaði á sögu Lennon og fór þá að gera sér betur grein fyrir sínu vandamáli.

„Það var erfitt að horfa á viðtalið við hann en það snerti mig líka. Þetta var tilfinningaríkt áhorf fyrir mann eins og mig sem var í vandræðum með þetta sjálfur. Ég hefði vel geta orðið háður þessum svefntöflum,“ sagði Nörgaard.

„Þetta er vandamál sem fer oft undir radarinn. Ég held samt með því að vekja meiri athygli á þessu, ekki bara í fótboltanum heldur líka í lífinu sjálfur, þá sér fólk betur hversu mikilvægt er að passa sig á þessu,“ sagði Nörgaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×