Fram kom í tilkynningu frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar á föstudag að velferðarsvið og barnavernd hafi komið að málum einstakra barna, vegna hóps drengja í sjöunda bekk Breiðholtsskóla sem hefur haldið öllu hverfinu í heljargreipum.
„Ég hef fullan skilning á því að foreldrum og börnum í Breiðholtinu, sem eru nálægt þessum atburðum og hafa mögulega orðið fyrir ofbeldi. Ég hef fullan skilning á að það sé hræðileg staða,“ segir Elísa Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.
Alltaf betra þegar unnið er með foreldrum
Hún segir barnavernd aldrei grípa inn í mál nema tilkynning hafi borist til hennar og eftir að farsældarlögin tóku gildi sé reynt að nýta fyrst úrræði í nærumhverfi, til dæmis hjá þjónustumiðstöðvum. Miklu máli skipti í svona málum að foreldrarnir taki þátt með Barnavernd.
„Okkur gengur alltaf best ef að fólk vinnur með okkur og við náum að sameinast um markmiðin og náum að vera í ríkulegri og góðri samvinnu. Það er alltaf barninu fyrir bestu.“
Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu fjölgaði tilkynningum til barnaverndar vegna áhættuhegðunar barna um 17,6 prósent á fyrstu sex mánuðum síðasta árs miðað við árið áður. Mest var það vegna tilkynninga um neyslu áfengis eða annarra efna, en þeim fjölgaði um 96,2 prósent. Tilkynningum um að barn beitti ofbeldi fjölgaði um 24,4 prósent.
„Það vantar fleiri pláss“
Elísa segir nokkuð ljóst að í sumum tilvikum nái úrræðin, sem eru í boði, ekki nógu vel til barnanna. Lengi hafi verið bent á að það vanti þriðja stigs úrræði, til dæmis fleiri pláss á Stuðlum og stytta þurfi bíðtíma eftir fjölkerfameðferðum - þar sem unnið er með börn inni á heimilum.
„Það vantar fleiri pláss, fleiri tegundir af úrræðum. Meiri þunga inn í málin, fyrr,þegar við sjáum að það er það sem þarf,“ segir Elísa.
Hún segir barnavernd Reykjavíkur ekki veigra sér við því að taka á malum vegna þess að börnin séu af erlendum uppruna. Hjá þeim sé sérstakt teymi sem sérhæfi sig í slíkum málum, þau hafi sótt námskeið og kynnt sér uppeldisaðferðir annarra þjóða.
„Þannig að við veigrum okkur sannarlega ekki við því, þvert á móti, við leggjum mikið upp úr því að vinna vel með þessum fjölskyldum eins og öllum öðrum.“