Það styttist í að Íslandsmótið í fótbolta fari af stað og eru mörg lið Bestu deildar karla að leggja lokahönd á leikmannahópa sína fyrir sumarið. Liðin slá aldrei hendi á móti góðum liðsstyrk og ef til vill hafa Blikar rambað inn á einn slíkan nú.
Hinn 24 ára gamli Þorleifur er uppalinn Bliki þó hann hafi um tíma leikið með Stjörnunni þegar hann var í 2. flokki. Hann á að baki einn leik í efstu deild hér á landi fyrir ríkjandi Íslandsmeistara en lék annars með Víking Ólafsvík meðan hann var í bandaríska háskólaboltanum.
Þar stóð hann sig nægilega vel til að vera valinn í nýliðavali MLS-deildarinnar af Houston Dynamo árið 2022. Í febrúar á síðasta ári samdi hann við Debrecen í Ungverjalandi en frá og með febrúar á þessu ári hefur hann verið samningslaus.
Nú verður að koma í ljós hvort Þorleifur sé að æfa með Blikum til að halda sér í standi eða hvort Íslandsmeistararnir séu enn að leita sér að liðsstyrk fyrir komandi tímabil.
Íslandsmeistarar Breiðabliks opna Bestu deild karla árið 2025 þegar Afturelding mætir á Kópavogsvöll þann 5. apríl næstkomandi.