Erlent

Ung­verska þingið bannar alla Pride við­burði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnarandstöðuþingmenn kveiktu á litríkum reykblysum í mótmælaskyni.
Stjórnarandstöðuþingmenn kveiktu á litríkum reykblysum í mótmælaskyni. AP/Boglarka Bodnar

Ungverska þingið hefur bannað alla Pride viðburði í landinu og heimilað yfirvöldm að notast við andlitsgreiningarbúnað til að bera kennsl á þá sem brjóta gegn banninu.

Um er að ræða breytingu á lögum sem banna einstaklingum að efna til eða mæta á viðburði sem brjóta gegn umdeildum „barnaverndarlögum“, sem aftur banna það að „kynna“ samkynhneigð fyrir börnum yngri en 18 ára.

Nýju lögin voru lögð fram á mánudag og samþykkt í gær, með 136 atkvæðum gegn 27.

Amnesty International eru meðal þeirra sem hafa fordæmt lagasetninguna og segja hana nýjasta skrefið í herferð stjórnvalda gegn hinsegin fólki. Sú staðhæfing að Pride viðburðir, á borð við Gleðigönguna íslensku, séu skaðlegir börnum byggi á engu öðru en fordómum.

Um sé að ræða skref 30 ár aftur í tímann.

Hadja Lahbib, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í jafnréttismálum, segir löggjöfina gegn anda gilda sambandsin; allir eigi að njóta frelsis til að vera þeir sjálfir og lifa og elska eins og þeir vilja. Rétturinn til að safnast saman á friðsamlegan hátt sé grundvallarréttur sem Evrópusambandið ætti að hafa í hávegum.

„Þetta er ekki barnavernd, þetta er fasismi,“ sögðu skipuleggjendur Budapest Pride í yfirlýsingu. Hátíðin fagni 30 ára afmæli í ár og verði haldin, jafnvel þótt þátttakendur eigi yfir höfði sér peningasekt.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×