Innlent

Fá­tæk börn upp­lifa meiri van­líðan og minna öryggi

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá embætti landlæknis kynnti niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar á málþingi í tilefni Alþjóðlega hamingjudagsins.
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá embætti landlæknis kynnti niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar á málþingi í tilefni Alþjóðlega hamingjudagsins. Vísir/Bjarni

Börn sem upplifa að fjárhagsstaða fjölskyldu þeirra sé slæm finna fyrir meiri vanlíðan, minna öryggi og eiga í verri félagstengslum en jafnaldrar þeirra. Þetta kom fram í niðurstöðum úr íslensku æskulýðsrannsókninni sem kynntar voru á málþingi í tilefni af Alþjóðlegum hamingjudegi sem haldinn var hátíðlegur í gær.

Á málþinginu ræddu Halla Tómasdóttir forseti og Dr. Guðrún Dóra Guðmundsdóttir meðal annars um hamingju, samkennd og Riddara kærleikans. Minningarsjóður Bryndísar Klöru gaf spilastokka til að minna á kærleikann og hvernig hann getur haft áhrif á samfélagið okkar til góða. Þá var spilað myndband af laginu Riddari kærleikans í flutningi GDRN en lag og texti er samið af Dagmar Helgu Helgadóttur og Valgerði Rakel Rúnarsdóttur og unnið áfram með unglingadeild Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi. 

Klippa: GDRN - Riddarar kærleikans

Þá leiddi leikkonan Edda Björgvinsdóttir hamingjudans þar sem dans kallar fram ánægjuhormón og almenna gleði. Einnig voru pallborðsumræður um karlmennsku og kærleika og lauk málþinginu með fjöldasöng. 

Fjárhagsstaða fjölskyldunar hefur áhrif á líðan barna

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, fór yfir niðurstöður íslensku æskulýðrannsóknarinnar á málþinginu, sem haldið var af embætti landlæknis, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Endurmenntun HÍ í hátíðarsal Háskóla Íslands. 

Klippa: Segir það vekja upp áhyggjur að skólakerfið grípi börnin ekki nógu vel

„Þarna var ég að fjalla um tölur úr íslensku æskulýðsrannsókninni sem við höfum verið að vinna hjá embætti landlæknis um líðan, öryggi og félagstengsl barna og ungmenna eftir því hvernig þau upplifa fjárhagsstöðu fjölskyldunnar sinnar,“ segir Sigrún. 

„Þar sáum við að þau sem að upplifa fjárhagsstöðu fjölskyldunnar sinnar slæma eða mjög slæma eru verr stödd á öllum þeim breytum sem við skoðuðum: Hvað varðar líðan, öryggi, tengsl við fjölskyldu, bekkjarfélaga, kennara og líðan í skóla. Þarna er hópur sem við þurfum virkilega að skoða hvernig við getum betur mætt sem samfélag.“

Minningarsjóður Bryndísar Klöru gaf spilastokk Vísir/Bjarni

Hún bendir á að ekki sé samræmi í tölum rannsóknarinnar og opinberum tölum frá Hagstofunni varðandi fátækt barna og þeirra upplifun. Í rannsókninni kom fram að aðeins eitt prósent barna metur fjárhagsstöðuna á þennan hátt en samkvæmt Hagstofunni bjuggu þrettán prósent barna á heimilum undir lágtekjumörkum árið 2021. Fjögur prósent bjuggu við skort á efnislegum gæðum. 

„Sem bendir kannski til þess að það er auðvitað heillavænlegt að það eru ekki öll börn sem búa við erfiðan fjárhag sem eru raunverulega að upplifa það þannig. En þessi hópur sem hefur þessa upplifun, hann er virkilega illa staddur,“ segir Sigrún.

Lítil lífsánægja, einmanaleiki og depurð barna 

Í erindi Sigrúnar á málþinginu kom fram að börn sem upplifa fjárhagsstöðu fjölskyldunnar slæma eru mun líklegri til að upplifa depurð og kvíða, þau greina frá lítilli lífsánægju, upplifa sig einmana og utangarðs, eru líklegri til að lenda í slagsmálum eða verða fyrir einelti. 

Þá eru þau líklegri til að verða fyrir ofbeldi af hálfu foreldris eða annars fullorðins á heimilinu, fá síður tilfinningalegan stuðning hjá fjölskyldu, upplifa síður að bekkjarfélagar þeirra séu vinsamlegir og taki þeim eins og þau eru og telja að kennurum þeirra sé síður annt um þau sem einstaklinga. 

„Fyrsta skrefið er að nýta þessi gögn sem eru til staðar í íslensku æskulýðsrannsókninni og skoða hvernig ójöfnuður birtist á meðal barna. Að  verða innlegg inn í stefnumótun og hjálpa þeim aðilum sem eru að sinna börnum, sjá hvar þörfin er og stuðla að innleiðingu eins og þessara nýju farsældarlaga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem við vonumst auðvitað til að verði til þess að grípa þau börn sem þurfa aðstoð í samfélaginu.“

Geðrækt í allar stefnur stjórnvalda

Sigrún segir embætti landlæknis hafa verið að leiðbeina skólum og sveitarfélögum hvernig þau geti tekið utan um börn og ungmenni í gegnum geðræktarstarf. 

„Við höfum lagt áherslu núna um árabil að sinna geðrækt betur í skólum, að kenna félags- og tilfinningafærni. Það hefur raunverulega verið baráttumál okkar um árabil að það komist inn í aðalnámsskrá. Að þetta verði sjálfsagður hluti af skólastarfi.“

Áhrifamestu aðgerðirnar, sem við getum farið í sem samfélag til þess að stuðla að jöfnuði, séu aðgerðir sem liggja utan heilbrigðiskerfisins. Það felist í því að virkja önnur kerfi líka. 

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og Dr. Guðrún Dóra Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis ræddu meðal annars um Riddara kærleikans og spilastokkinn sem Minningarsjóður Bryndísar Klöru gaf á málþinginu í tilefni hamingjudagsins. Vísir/Bjarni

„Við erum oft að tala um það sem á ensku heitir „Mental Health and all Policies“ eða geðrækt í allar stefnur stjórnvalda. Til þess að ná utan um geðheilbrigði eða farsæld, velsæld barna og fólksins almennt þá þarf allt samfélagið að koma til. Og þetta snýr ekkert síst að þessum efnahagslegu þáttum, fjárhagsstöðu fólks, menntun og aðgengi að menntun,“ segir Sigrún. 

„Við sáum í þessum gögnum til dæmis að þessi börn sem upplifa fjárhagsstöðu sína erfiða að þau upplifa það líka síður að kennurunum þeirra sé annt um þau. Það vekur virkilegar áhyggjur og er eitthvað sem við þurfum að skoða betur hvort að skólakerfið sé að grípa börnin nægilega vel vegna þess að börn auðvitað þau verja æsku sinni að mestu leyti annarsvegar inni á heimilinum sínum og síðan í skólanum. Og þetta eru þessir tveir vettvangar sem við viljum beina sjónum og huga að því hvernig eru uppeldisskilyrði barna á heimilum og við séum að hlúa í raun nægilega vel að barnafjölskyldum í landinu en líka skólakerfið.“


Tengdar fréttir

Alþjóðlegi hamingjudagurinn – hvað er hamingja?

Í dag er Alþjóðlegi hamingjudagurinn en hann er haldinn hátíðlegur þann 20. mars ár hvert. Þessi dagur minnir okkur á mikilvægi þess að staldra við og íhuga hvað hamingja raunverulega er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×