Í tilkynningu frá lögreglu segir að tilkynning um líkamsárásina hafi borist klukkan 22:57, og þá hafi verið nokkuð af fólki á ferli á svæðinu.
„Því er ekki ósennilegt að myndefni af atburðarásinni, eða hluta hennar, sé að finna í símum einhverra.“
„Hinir sömu eru vinsamlegast beðnir um að senda upplýsingar um slíkt á netfangið abending@lrh.is og gefa þar upp bæði nafn sitt og símanúmer. Í framhaldinu verður haft samband við viðkomandi.“
Beittu hníf og kylfu
Þá segir í tilkynningunni að í stunguárásinni hafi bæði hníf verið beitt og kylfu.
Tveir hafi verið fluttir á sjúkrahús eftir árásina og báðir hafi verið útskrifaðir.
„Mikil mildi þykir að ekki fór ver. Rannsókn málsins, sem er mjög umfangsmikið, miðar ágætlega.“
Áðan var greint frá því að allir þrettán sem voru handteknir í tengslum við rannsóknina hefðu verið látnir lausir.