Já ef einhver tíman hefur verið talað um að fara í hundana þá á það svo sannarlega við á heimili í Jörundarholti á Akranesi þar sem eru nú 10 hvolpar og fjórir fullorðnir hundar. Kettirnir þrír voru ekki heima.
En af hverju allir þessir hundar?
„Svo ákváðum við að gera got og hún eignast hvolpana en verður svo lífshættulega veik. Þá tala ég við Sunnu vinkonu mína á Akranesi og við ákváðum að prófa að koma með hvolpana úr Reykjavík og vita hvort Korka myndi vilja vera með þá á spena, sem að gekk alveg ótrúlega vel, Þú sérð hópinn hvað hann er fallegur hérna, allir hressir og kátir,” segir Þóra Lind Karlsdóttir, eigandi tíkarinnar Ford Galaxy og rakkanna fimm, sem Korka tók að sér.
Þetta er ótrúlega falleg saga, finnst þér það ekki?
„Já, þetta er rosalega falleg saga. Við gátum ekki annað en sagt frá henni, bæði vinskapur dýra og manna og að þetta skyldi allt hafast af. Þetta gefur manni var svo hlýtt og gott í hjartað,” bætir Þóra Lind við.Korka, sem er íslenskur fjárhundur er dáð af öllum að hafa getað hugsað um níu hvolpa í einu og haft þá alla á spena.

„Já, hún er ótrúleg og hún hefur alltaf haft ótrúlega mikið móðureðli. Og þegar fyrsti kettlingurinn flutti inn til okkar af því að það eru ekki bara 14 hundar á heimilinu okkar núna heldur líka þrír kettir og þá tók hún þann kettling að sér og fór að mjólka fyrir hann og allt. Þá var hún bara eins og hálfs árs. Þannig að hún er algjör mamma út í gegn og hefur staðið svo ótrúlega vel. Við erum svo þakklát fyrir hana,” segir Sunna Dís Jensdóttir hundaeigandi með meiru og íbúi á Akranesi.
