Enski boltinn

Barton dæmdur fyrir að ráðast á eigin­konu sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joseph Anthony Barton, betur þekktur sem Joey Barton.
Joseph Anthony Barton, betur þekktur sem Joey Barton. Ioannis Alexopoulos/Getty Images

Fyrrum knattspyrnumaðurinn Joey Barton hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á eiginkonu sína,Georgiu. Atvikið átti sér stað á heimili fjölskyldunnar í Lundúnum sumarið 2021.

Hinn 42 ára gamli Barton spilaði með liðum á borð við Manchester City, Newcastle United, Queens Park Rangers og Marseille á ferli sínum sem spannaði rúm 15 ár. Þá lék hann einu sinni með enska A-landsliðinu.

Síðan skórnir fóru á hilluna hefur Barton reynt fyrir sér í þjálfun sem og hann hefur viðrað skoðanir sínar í hlaðvörpum hér og þar á Bretlandseyjum. Nú hefur hann verið dæmdur í tólf vikna skilorðsbundið fangelsi. Það þýðir að hann þarf ekki að dúsa í steininum nema hann verði sakfelldur um annan glæp.

Barton er sakfelldur fyrir að ganga í skrokk á eiginkonu sinni er þau rifust á heimili sínu sumarið 2021. Undir áhrifum áfengis reif hann í Georgiu, hrinti henni á jörðina og sparkaði í höfuð hennar.

Samkvæmt frétt Sky Sports hefur Barton ávallt neitað sök en þó viðurkennið að rifrildi hafi átt sér stað. Eiginkona hans hringdi í Neyðarlínuna og sagði Barton hafa lamið sig en sendi síðar meir bréf á dómstóla og dró ásakanir sínar til baka. 

Áverkar hennar voru hins vegar nóg fyrir dómstólana úti til að sakfella Barton. Barton og Georgia búa enn saman samkvæmt frétt Sky Sports. Hann mun áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×