Upp­gjörið: FH - ÍR 33-29 | FH-ingar deildar­meistarar annað árið í röð

Hinrik Wöhler skrifar
FH-ingar eru deildarmeistarar annað árið í röð eftir sveiflukenndan leik í Kaplakrika í kvöld.
FH-ingar eru deildarmeistarar annað árið í röð eftir sveiflukenndan leik í Kaplakrika í kvöld. vísir/Hulda Margrét

FH tryggði sér í kvöld deildarmeistaratitilinn í Olís-deild karla í handbolta með sannfærandi sigri á ÍR, þrátt fyrir sveiflukenndan leik. Lokatölur í Kaplakrika voru 33-29.

Breiðhyltingar hófu leikinn af krafti og voru yfir fyrstu mínúturnar, með 4-2 forystu, en eftir það fór að halla undan fæti fyrir gestina. FH-ingar náðu fljótlega sex marka forystu um miðjan fyrri hálfleik, þar sem ÍR-ingar áttu í basli með að komast fram hjá þéttri vörn Hafnfirðinga.

Daníel Freyr Andrésson, markvörður FH, átti góðan leik í fyrri hálfleik og varði vel, sem gaf heimamönnum færi á að bæta við auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum. Heimamenn skoruðu að vild og munurinn jókst jafnt og þétt í Kaplakrika þegar leið á fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 19-10 fyrir FH, og á þeim tímapunkti var ljóst að deildarmeistaratitillinn væri innan seilingar. Á sama tíma voru ÍR-ingar að berjast fyrir því að lenda ekki í næst neðsta sæti deildarinnar, sem hefði þýtt umspil um fall.

ÍR-ingar voru ekki búnir að gefast og komu beittir inn í seinni hálfleik. Þeir náðu að minnka muninn í sex mörk snemma í seinni hálfleik og gekk sóknarleikurinn mun betur en undir lok fyrri hálfleiks.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, tók sitt fyrsta leikhlé í leiknum snemma í seinni hálfleik og kjölfarið rönkuðu Hafnfirðingar við sér og skoruðu hvert markið á fætur öðru.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum skoraði Símon Michael Guðjónsson úr hraðaupphlaupi og munurinn orðinn tíu mörk á milli liðanna.

Heimamenn gáfu eftir undir lok leiks þegar sigurinn var vís en baráttuglaðir ÍR-ingar voru ekki búnir að gefa upp alla von og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk en nær komust þeir ekki.

Leiknum lauk með 33-29 sigri FH og tryggði liðið sér titilinn annað árið í röð. Afturelding sigraði Gróttu á sama tíma, sem þýddi að ÍR slapp við fall og heldur sæti sínu í Olís-deildinni.

Atvik leiksins

Það er erfitt að nefna eitt einstakt atvik sem hafði afgerandi áhrif á leikinn sjálfan. Það er réttast að skrifa atvik leiksins á fögnuð FH-inga í leikslok og einnig að ÍR-ingar byrjuðu að fagna um svipað leyti, þrátt fyrir tap.

Breiðhyltingar stukku í símann strax eftir leik og sáu að úrslitin voru þeim í hag í leik Aftureldingar og Gróttu. Það þýddi að ÍR slapp við fall og mun áfram leika í Olís-deildinni á næsta tímabili.

Stjörnur og skúrkar

Hægri skyttur liðanna héldu uppi sóknarleiknum framan af leik. Leonharð Þorgeir Harðarson fann ávallt glufur á vörn ÍR-inga og endaði markahæstur með sjö mörk í liði FH. Hjá Breiðhyltingum var Bernard Darkoh sífellt ógnandi með sínum snöggu gabbhreyfingum en hann skoraði níu mörk úr fimmtán tilraunum.

FH lagði grunninn að sigrinum með góðum varnarleik í fyrri hálfleik en Ágúst Birgisson og Ólafur Gústafsson voru virkilega agaðir í hjarta varnarinnar og þvinguðu Breiðhyltinga í erfið skot.

Dómarar

Hið reynslumikla dómarapar, Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson, sáu um dómgæsluna í Kaplakrika í kvöld. Gott sem óaðfinnanlega dæmt hjá tvíeykinu og voru þeir með flest vafaatriði á hreinu.

Stemning og umgjörð

Stemningin í Kaplakrika var sannarlega til fyrirmyndar í kvöld. Stuðningsmenn beggja liða voru mættir snemma í stúkuna og var hörku stemning frá fyrstu mínútu. Umgjörðin var glæsileg hjá Hafnfirðingum, allt frá veglegri leikmannakynningu fyrir leik til fagnaðarhalda í leikslok þegar deildarmeistaratitillinn var í höfn.

Viðtöl



Baldur Fritz: „Ég verð í ÍR“

Baldur Fritz Bjarnason ásamt föður og þjálfara sínum, Bjarna Fritzsyni.vísir/bjarni

Miðjumaðurinn efnilegi, Baldur Fritz Bjarnason, var enn á ný markahæsti leikmaður ÍR í kvöld. Þrátt fyrir tapið var Baldur nokkuð ánægður með sitt eigið framlag á tímabilinu sem og frammistöðu liðsins, enda tókst þeim að tryggja sér áframhaldandi veru í Olís-deildinni.

„Mjög sveiflukennt, við trúðum strax frá byrjun að við værum að fara vinna þennan leik en svo kom smá skellur í hálfleik. Við höfðum trú á þessu að við gætum komið til baka en svona endaði þetta og ég er ánægður með að ná að halda okkur uppi,“ sagði Baldur skömmu eftir leik.

ÍR-ingur þurftu að treysta á að Grótta myndi ekki sigra Aftureldinga og var mikill léttir hjá Baldri og samherjum hans þegar úrslitin voru ljós á Seltjarnarnesi.

„Við ætluðum að fókusa á þennan leik og reyna að klára hann, ekki þurfa treysta á neinn annan. Við pældum ekkert í því í hálfleik og bara fókus á þennan leik. Svo eftir leik þá náttúrulega kíktum við á úrslitin,“ sagði Baldur.

Breiðhyltingar halda nú í langt sumarfrí á meðan flest önnur lið fara í úrslitakeppnina eða umspil um sæti í deildinni. ÍR-ingar ætla að nýta fríið vel og koma sterkari til leiks á nýju tímabili.

„Við munum koma miklu sterkari til baka eftir sumarið. Við höfum fimm mánuði til að æfa og styrkja okkur,“ sagði Baldur.

Baldur hefur átt stórbrotið tímabil þar sem hann skoraði gott sem tíu mörk í leik að meðaltali. Mögnuð tölfræði hjá 18 ára leikmanni í efstu deild og hann gat verið stoltur af sinni frammistöðu í vetur.

„Bara flott, bara mjög gott. Ég er mjög ánægður og stoltur af sjálfum mér en einnig liðinu. Þetta er geðveikt lið sem við erum búnir að spila með í vetur. Við spilum hratt og mikið af mörkum. Ég er bara að hugsa um að vinna.“

Baldur er markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar í ár og það með miklum yfirburðum. Hann skoraði 211 mörk og er það 52 mörkum meira en næsti maður.

Hvað verður um miðjumanninn efnilega á næsta tímabili?

„Ég verð í ÍR,“ sagði Baldur ákveðinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira