Erlent

Heim­sókn Vance óvið­eig­andi og ó­við­unandi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherra segir heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Grænlands og orð hans þar óviðeigandi og óviðunandi. Utanríkisráðherra Danmerkur segir ríki ekki eiga að tala við bandamenn sína líkt og Bandaríkjamenn tala við Dani. 

Seint í gærkvöldi birti Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, myndbandsávarp sem stílað var á Bandaríkjamenn. Ávarpið var birt í kjölfar heimsóknar JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna, til Grænlands en æðstu ráðamenn Bandaríkjanna hafa ítrekað sagst vilja eignast Grænland. Í heimsókn sinni sagði Vance Danmörku ekki hafa staðið sig gagnvart grænlensku þjóðinni.

Breytt ástand á Norðurskautinu

Rasmussen segir Dani opna fyrir gagnrýni. Hins vegar tali maður ekki við bandamenn sína líkt og Bandaríkjamenn tala við Dani.

„Við tókum öll ákvarðanir út frá þeim forsendum að Norðurskautið væri og ætti að vera lágspennusvæði. En sá tími er liðinn. Óbreytt ástand er ekki í boði,“ segir Rasmussen.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, segir veruleikann á Norðurslóðum vera afar breyttan.

„Heimsókn Vance til Grænlands og það sem hann sagði, mér fannst það bæði óviðeigandi og óviðunandi satt best að segja,“ segir Þorgerður. „Þegar það eru erfiðar aðstæður og þú veist að það eru viðkvæmar aðstæður hjá vini þínum, þá ertu ekki að mæta óboðinn og ryðst inn á heimilið. Svoleiðis gerir fólk ekki.“

Samstaða Norðurlandanna mikilvægt

Hún segir alveg ljóst að Ísland standi með Grænlandi og Danmörku.

„Þetta eru lönd sem eru í norrænu fjölskyldunni. Ég held að samstaða Norðurlandaþjóðanna núna sé mikilvægari sem aldrei fyrr og við tölum skýrt að alþjóðalög séu virt og fullveldi þjóða,“ segir Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×