Þetta kemur fram í færslu Trumps á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði að tollarnir væru miklu stærra högg fyrir Kína en Bandaríkin, það væri engin spurning. Þá sagði hann að Kína og aðrar þjóðir hefðu komið illa fram við Bandaríkin og það gæti ekki gengið til lengri tíma.
„Við höfum verið heimsk og hjálparlaus, en verðum það ekki lengur. Við erum að endurheimta störf og fyrirtæki eins og við höfum aldrei gert áður,“ sagði Trump.
„Þetta er efnahagsleg bylting, og við munum sigra. Haldið ykkur fast, þetta verður ekki auðvelt, en lokaniðurstaðan verður söguleg,“ sagði hann.
Jaguar Land Rover tilkynnti um það í dag að hlé yrði gert á bílasendingum til Bandaríkjanna í apríl eftir 25 prósenta tollahækkun Bandaríkjanna á innflutning allra erlendra bíla.
Jaguar Land Rover er einn stærsti bílaframleiðandi Bretlands, en í tilkynningu frá þeim segir að Bandaríkin séu mikilvægur markaður fyrir lúxusvörumerki fyrirtækisins.
„Eftir því sem við vinnum að því að bregðast við nýjum verslunarskilmálum viðskiptafélaga okkar, munum við grípa til skammtímaaðgerða sem fela í sér sendingarhlé í apríl meðan við vinnum að langtímaáætlunum,“ stóð í yfirlýsingunni frá Land Rover.
Sjá einnig: Jaguar Land Rover stöðvar sendingar vegna tollahækkana

Tollarnir komi til með að breytast
Tollverðir í Bandaríkjunum byrjuðu í dag að innheimta tíu prósenta toll á allar vörur sem fluttar eru inn til Bandaríkjanna. Eftir viku munu tollarnir hækka á vörum sem fluttar eru inn frá 57 löndum utan Bandaríkjanna.
„Þetta er stærsta viðskiptaaðgerð okkar tíma,“ var haft eftir Kelly Ann Shaw, viðskiptalögfræðingi of fyrrverandi viðskiptaráðgjafa í ríkisstjórn Trump, á vef Reuters, en Shaw fjallaði um ákvarðanir Trump á viðburði í Brookings Institution á fimmtudag.
Þar sagði hún að hún ætti von á því að tollarnir myndu þróast yfir tíma og hvert ríki myndi sækjast eftir því að semja um lægri tolla.
„En þetta er risamál,“ sagði hún og að þessi ákvörðun hefði áhrif á öll viðskipti heimsins.