Sem tvívegis hefur spurt sérstaklega um gervigreind í könnunum. Fyrst í júlí 2023 og aftur núna í mars 2025.
„Við spurðum líka hvort fólk fengi hvatningu frá stjórnendum til að nota spunagreind og meira en helmingur segist enga hvatningu fá í þá veru. Að sjálfsögðu eru tækifærin til að nota spunagreind misjöfn milli vinnustaða en þetta er hærri tala en ég bjóst við,“ segir Tómas.
Í Atvinnulífinu í dag og á morgun, verður fjallað um gervigreind með áherslu á stjórnendur.

Fleiri að sjá persónuleg tækifæri
Það er vel við hæfi að rýna í stjórnendur og gervigreind núna því í fyrramálið verða stjórnendaverðlaun stjórnendaráðgjafar Gallup afhent. Til greina koma allir stjórnendur í íslensku atvinnulífi sem eru í topp 10% helgunar í alþjóðlegum gagnabanka Gallup, en það eru mannauðssvið fyrirtækja sem tilnefna stjórnendur.
Viðburðurinn hefst klukkan 09:00 á Nordica en í erindum og umræðu stjórnenda í panel, er sjónunum beint að gervigreindinni.
Og þá er spurt: Hver er staðan og eru íslenskir stjórnendur tilbúnir í það sem koma skal þar sem gervigreindin verður nánast í einu og öllu framundan?
Tómas segir ýmislegt hafa breyst á milli kannana. Fleiri sjái til dæmis tækifærin sem gervigreindin boði frekar en hitt.
Þá segir Tómas fleiri á vinnumarkaði telja sig hafa meiri þekkingu á gervigreind nú í samanburði fyrir tveimur árum.
„Þó eru enn fáir sem telja sig hafa gífurlega eða mjög mikla þekkingu á henni.“
Í auknu mæli, er fólk þó að sjá gervigreind sem persónuleg tækifæri fyrir sig.
„Núna telja 52% starfandi fólks gervigreind frekar fela í sér tækifæri fyrir sig, en 17% telja hana frekar fela í sér ógn. Jafnmargir töldu hana ógn í könnuninni fyrir tveimur árum, en umtalsvert færri töldu hana tækifæri.“
Með tilliti til stjórnenda segir Tómas samt:
Ekki er munur á svörum stjórnenda og starfsfólks hvað þetta varðar en það er mikill munur á viðhorfum eftir menntun.
Fólk með háskólamenntun telur frekar en fólk með skemmri menntun að gervigreind feli í sér tækifæri fyrir sig og síður að hún feli í sér ógn.“

Unga fólkið með mikið forskot
Það sem verður samt að segjast nokkuð sláandi í niðurstöðum er að sjá hversu mikill munur er á kynslóðum.
Hjá aldurshópnum 18-29 ára segjast til dæmis 75% aðspurða að það hafi nýtt sér gervigreindina á síðastliðnum tólf mánuðum og 71% fólks á aldrinum 30-39 ára.
Til samanburðar eru 53-55% fólks á aldrinum fertugt til sextugt að nota gervigreindina og aðeins 31% þeirra sem eru eldri en sextugt.
„Það er mikill munur á þekkingu á gervigreind eftir aldri og líka eftir kyni. Ungt fólk telur sig frekar en eldra hafa mikla þekkingu á henni og karlar frekar en konur. Þegar kemur að nýtingu gervigreindar er ungt fólk duglegra að nýta gervigreind en eldra fólk.“
En nú þegar línur eru að skýrast um gervigreindina og hvað fólk getur nýtt sér, var nokkrum spurningum bætt við í takt við nýlega þróun.

„Í könnuninni núna í mars spurðum við sérstaklega um spunagreind, eða genAI, sem er lausn eins og ChatGPT. Við sjáum að það eru fleiri jákvæðir en neikvæðir gagnvart notkun á spunagreind. Það er skýr munur milli hópa eftir menntun og fólk með háskólamenntun er jákvæðast. Einnig kemur fram að eldra fólk er síður jákvætt en yngra.“
Tómas segir þó margt enn á huldu.
„Margar stórar spurningar vakna varðandi notkun á gervigreind. Ein þeirra er hvaða áhrif notkun hennar hefur á störf og gæði þeirra. Munum við nýta gervigreind í okkar þágu, okkur til hægðarauka, eða verður gervigreindin í aðalhlutverki og fólk einhvers konar handbendi hennar?“ veltir Tómas upp og bætir við:
„Eins og oft er ekki eitt rétt svar, bæði svör geta verið rétt. Enn sem komið er eru fleiri jákvæðir gagnvart gervigreind en neikvæðir, fleiri sjá tækifæri en ógn og raunar telja mun fleiri af þeim sem hafa nýtt spunagreind að hún hafi hingaðtil haft jákvæð áhrif á starfið en ekki neikvæð. Það gildir bæði um stjórnendur og annað starfsfólk.“
Tómas segir fólk sem nýtir sér gervigreind þó ágætlega meðvitað um það hvaða hættur geta leynst við notkun hennar.
„Við spurðum til dæmis í hvað fólk nýtti spunagreind og einnig hvaða hættur fólk sæi við notkun hennar.
Meira en helmingur notar spunagreind í textagerð og til að hjálpa sér að skrifa tölvupósta, 43% nýta hana við þýðingar og 37% í almenna þekkingaröflun.
Fólk er ágætlega meðvitað um hættur sem geta fylgt notkun spunagreindar.
Langflestir segja að ónákvæmni eða villur séu mesta hættan við notkun hennar á vinnustöðum, eða 78% notenda,“
segir Tómas en bætir við:
„Mun færri telja fækkun starfa eða neikvæð áhrif á störf vera mestu hættuna, eða aðeins rúmur fimmtungur. Enn sem komið er hefur spunagreind því jákvæð áhrif á starfið og fáir tengja hana við mikla hættu eða ógn.“
En snúum okkur aftur að stjórnendum og íslensku atvinnulífi; Hvernig metur Tómas stöðuna?
„Traust er afgerandi þáttur í allri stjórnun og það snýr ekki síst að innleiðingu breytinga og nýrrar tækni. Ef við treystum ekki stjórnendum til að leiða okkur rétta leið þá eykst mótstaða okkar. Þegar við spurðum hversu vel fólk treysti stjórnendum vinnustaðar síns til að nýta spunagreind með jákvæðum hætti fyrir vinnustaðinn, starfsfólkið og samfélagið“ sögðu aðeins 18% mjög vel. Sem betur fer eru þó fáir sem treysta stjórnendum beinlínis illa í verkið, eða 11%“
Stjórnendur eru þó í lykilstöðu hvað varðar framhaldið og hvernig gervigreindin verður innleidd.
„Við vitum að hvatning stjórnenda er afgerandi þáttur þegar kemur að allri þróun starfsfólks. Ég held að það séu flestir sammála um að skynsamleg nýting gervigreindar geti veitt vinnustöðum mikið samkeppnisforskot, en stjórnendur þurfa að leiða innleiðingu gervigreindar á vinnustöðum og þurfa að svara lykilspurningum um notkun hennar og öryggi.“