Vísitölur fóru upp um rúm tvö prósent í Hong Kong og um tæp tvö prósent í Japan. Í Suður-Kóreu voru einnig hækkanir en aðeins um eitt prósent.
Ástæðan fyrir aukinni bjartsýni á mörkuðum er sögð vera breyting sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt um um helgina en hún er sú að raftæki á borð við tölvur og snjallsíma verða undanþegin ofurtollunum sem hann hefur sett á Kína, sem nema nú allt að 145 prósentum.
Howard Lutnick, efnahagsráðgjafi Trumps, var þó fljótur til að gefa út þann fyrirvara að þessi undanþága væri aðeins tímabundin og Trump skrifaði svo á samfélagsmiðla að þessar vörur væru enn með hinn svokallaða Fentanyl-toll á sér, sem nemur tuttugu prósentum, þannig að málið er enn nokkuð óljóst.
Engu að síður virðast markaðir sjá vonarglætu þessum breytingum og því urðu hækkanir, þó þær teljist heldur varfærnar.