Mögnuð endur­koma mikil­væg í toppbaráttunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Raphinha tryggði Barcelona sigurinn í dag.
Raphinha tryggði Barcelona sigurinn í dag. Jose Breton/Getty Images

Barcelona virtist vera að missa af tveimur stigum í toppbaráttu La Liga, efstu deildar karla í knattspyrnu á Spáni, þegar liðið fékk vítaspyrnu gegn Celta Vigo þegar komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur í Katalóníu 4-3 og Börsungar auka forskot sitt á toppi deildarinnar.

Toppliðið byrjaði vel og Ferran Torres kom Barcelona yfir á 12. mínútu eftir undirbúning Iñigo Martínez. Hinn markheppni Borja Iglesias jafnaði metin fyrir Vigo-menn stuttu síðar og staðan 1-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. 

Iglesias var hvergi nærri hættur og skoraði hann tvívegis í síðari hálfleik, staðan óvænt orðin 1-3 og Börsungar í slæmum málum. Það tók heimaliðið hins vegar aðeins tvær mínútur að minnka muninn, Dani Olmo með markið eftir undirbúning Raphinha. 

Brasilíumaðurinn jafnaði svo metin eftir sendingu Lamine Yamal stuttu síðar og staðan orðin 3-3. Þannig var hún þegar venjulegum leiktíma var lokið og raunar þangað til Barcelona fékk vítaspyrnu á 97. mínútu leiksins. 

Raphinha steig upp og tryggði Barcelona gríðarlega mikilvæg þrjú stig í titilbaráttunni, lokatölur 4-3 og Börsungar nú með sjö stiga forystu á Real Madríd sem á þó leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira