Upp­gjörið: Aftur­elding - Valur 31-23 | Mosfellingar jöfnuðu metin með stæl

Hinrik Wöhler skrifar
Árni Bragi Eyjólfsson skýtur að marki Valsmanna.
Árni Bragi Eyjólfsson skýtur að marki Valsmanna. Vísir/Jón Gautur

Afturelding sigraði Val örugglega í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í Mosfellsbæ í kvöld. Leikurinn endaði 31-23, Mosfellingum í vil, og náðu þeir þar með að hefna fyrir tapið í fyrsta leik einvígisins.

Heimamenn komu í hefndarhug til leiks og byrjuðu af krafti. Leikurinn fór af stað eins og í sögu hjá Mosfellingum sem skoruðu úr nær öllum sóknum og komust í 8-4 forystu eftir tíu mínútna leik.

Bjarni Selvindi var markahæstur í liði Vals í kvöld.Vísir/Jón Gautur

Það hægðist aðeins á sóknarleik Aftureldingar í kjölfarið og bæði lið skiptust á að tapa boltanum í sókninni. Gestirnir náðu að minnka muninn jafnt og þétt um miðbik fyrri hálfleiks og var staðan orðin 11-8, Mosfellingum í vil, eftir tæplega 20 mínútur.

Undir lok fyrri hálfleiks small varnarleikur Aftureldingar, þar sem Valsmenn komust hvorki lönd né strönd í sókninni. Mosfellingar þvinguðu gestina í erfið skot og sömuleiðis gekk sóknarleikurinn betur.

Blær Hinriksson lék stórt hlutverk í liði Aftureldingar í kvöld.Vísir/Jón Gautur

Heimamenn kláruðu fyrri hálfleik á frábærum kafla og staðan í leikhléi var 16-10, heimamönnum í vil. Ljóst var að Mosfellingar væru komnir í góða stöðu til þess að klára leikinn og að jafna einvígið.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og höfðu ekki gefist upp. Valsmenn skoruðu fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleik og bjuggust eflaust margir við spennandi lokakafla.

Björgvin Páll Gústavsson hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en komst í takt við leikinn þegar leið á.Vísir/Jón Gautur

Mosfellingar rönkuðu við sér skömmu síðar, í stöðunni 19-16, og stöðvuðu áhlaup Valsmanna.

Liðsmenn Aftureldingar þjöppuðu sér saman í vörninni og gengu á lagið í sókninni. Mosfellingar skoruðu mörk úr hraðaupphlaupum og seinni bylgju og juku forskotið.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum var fimm marka munur á liðunum og heimamenn gáfu ekkert eftir á lokakaflanum.

Að lokum sigruðu Mosfellingar með átta marka mun, 31-23, og jöfnuðu undanúrslitaeinvígið. Þriðji leikur einvígisins er á föstudag og ljóst er að Valsmenn eiga harma að hefna eftir stórt tap í Mosfellsbæ í kvöld.

Atvik leiksins

Virkilega sterk byrjun Mosfellinga setti tóninn fyrir leikinn og voru þeir komnir í 6-2 eftir rúmlega sjö mínútna leik. Sá munur hélst meira og minna út allan leikinn og áttu Valsmenn erfitt með að saxa á forskot Aftureldingar.

Brynjar Vignir Sigurjónsson byrjaði í hvítri treyju en skipti snögglega yfir í blátt.Vísir/Jón Gautur

Áhugavert atvik átti sér stað í upphafi leiks þegar markvörður Aftureldingar, Brynjar Vignir Sigurjónsson, kom inn á til að freista þess að verja vítakast. Hann var þó strax tekinn af velli þar sem hann klæddist hvítri treyju sem líktist að miklu leyti treyjum Valsmanna.

Atvik sem hafði engin áhrif á gang leiksins, en vissulega ekki eitthvað sem maður sér á hverjum degi.

Stjörnur og skúrkar

Birgir Steinn Jónsson var frábær á báðum endum vallarins í liði Aftureldingar. Hann skoraði sex mörk og lagði upp í sókninni. Einnig stal hann boltum af sóknarmönnum Vals sem leiddi til hraðra sókna í kjölfarið.

Ljósi punkturinn í liði Vals var hinn færeyski Bjarni Selvindi, sem hélt samherjum sínum á floti í sóknarleiknum. Þorgils Jón Svölu Baldursson tók mikið til sín á línunni og skoraði fimm mörk úr jafnmörgum tilraunum.

Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði fimm mörk af línunni.Vísir/Jón Gautur

Hægri vængur Valsmanna var í basli í sókninni og vinstri hornamaðurinn, Úlfar Páll Monsi Þórðarson, fann ekki taktinn í leiknum í dag - auk þess sem hann þrumaði boltanum í andlitið á Einari Baldvini Baldvinssyni, markverði Aftureldingar, af stuttu færi undir lok leiks.

Dómarar

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson sáu um dómgæsluna í kvöld og voru með flestar ákvarðanir á hreinu.

Jónas Elíasson mundar gula spjaldið.Vísir/Jón Gautur

Valsmenn voru þó ekki parsáttir með ruðningsdóm þegar hægri hornamaðurinn, Kristófer Máni Jónasson, stökk inn úr horninu og fékk dæmdan á sig ruðning. Ansi svipað atvik átti sér stað hinum megin á vellinum skömmu áður þegar Stefán Magni Hjartarson stökk inn úr hægra horninu, en þá fengu Mosfellingar dæmt víti.

Stemning og umgjörð

Hin fínasta stemning var í Íþróttamiðstöðinni að Varmá í kvöld og var mikið líf og fjör meðal stuðningsmanna Aftureldingar, með trommuslætti, konfetti og tilheyrandi.

Stuðningsmenn Aftureldingar geta leyft sér að fagna í kvöld.Vísir/Jón Gautur

Viðtöl

Einar Baldvin: „Vorum með stúkuna með okkur“

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Aftureldingar, var virkilega sáttur með varnarleikinn í kvöld.Vísir/Jón Gautur

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Mosfellinga, segir að stemningin hafi spilað lykilhlutverk í sigri Aftureldingar í kvöld.

„Ég held að það hafi verið stemningin okkar megin. Það var stemning frá fyrstu mínútu, bara jákvæð og góð stemning. Vorum með stúkuna með okkur, bara Mosó-andinn, fundum hann. Þurftum að grafa djúpt eftir andleysi í síðasta leik,“ sagði Einar skömmu eftir leik.

Valsmenn komu sterkir inn í seinni hálfleik og voru komnir inn í leikinn að nýju. Einar segir að það hafi verið vandamál hjá Aftureldingu að klára leiki í seinni hálfleik, en það hafi tekist í kvöld.

„Þetta er oft svona hérna í Mosó, við erum yfir með sjö en það er aldrei neitt öruggt hérna. Við erum frekar lélegir að drepa leikinn í byrjun seinni en náðum allavega að rétta þetta við um miðbik seinni hálfleiks. Það var flott hjá okkur og er stoltur af strákunum.“

Afturelding fékk aðeins 23 mörk á sig og var varnarleikurinn vel skipulagður. Einar Baldvin segist vera virkilega ánægður með samherja sína í vörninni.

„Þetta var frábær vörn, allt upp á tíu í vörninni. Fáum á okkur 23 mörk og þar af þrjú víti. 20 mörk í opnum leik, það er alveg frábært. Stemningin upp á tíu.“

Einar Baldvin fékk fast skot í andlitið undir lok leiks, en hann var fljótur að jafna sig og fagnaði eins og óður maður í kjölfarið.

„Jájá, þetta er ekki viljandi hjá Monsa [Úlfari Páli] mínum. Hann er ekki að reyna þetta og ég var heppinn að verja frá honum,“ sagði markvörðurinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira