Fótbolti

Landsliðsmennirnir sjö sem missa af leiknum á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna marki Ragnars Sigurðssonar á móti Englandi á EM 2016.
Íslensku strákarnir fagna marki Ragnars Sigurðssonar á móti Englandi á EM 2016. Getty/ Marc Atkins

Nokkrar breytingar verða á leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fyrir síðasta leik ársins og síðasta leikinn undir stjórn Erik Hamrén sem er Þjóðadeildarleikur gegn Englandi á Wembley á miðvikudag.

Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson verða ekki með liðinu gegn Englandi og hafa yfirgefið íslenska hópinn.

Inn í íslenska hópinn koma í staðinn þeir Alfons Sampsted, Jón Dagur Þorsteinsson, Andri Fannar Baldursson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson, sem allir voru í leikmannahópnum hjá U21 landsliðinu sem lék tvo leiki í undankeppni EM á dögunum.

Hörður Björgvin Magnússon tekur út leikbann gegn Englandi, þar sem hann fékk sína aðra áminningu í Þjóðadeildinni í leiknum gegn Dönum.

Leikurinn fer fram sem fyrr segir á Wembley-leikvanginum í Lundúnum á miðvikudag, hefst kl. 19.45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson misstu allir líka af fyrri leiknum á móti Englendingum á Laugardalsvellinum í september síðastliðnum og síðasti leikur þeirra á móti Englandi er því áfram leikurinn í Nice í júnílok 2016 þegar Ísland sló enska landsliðið út úr sextán liða úrslitunum á EM.

Alfreð Finnbogason missti líka af fyrri leiknum við England í september og hefur aldrei mætt Englandi í landsleik því hann sat allan tímann á bekknum i leiknum fræga í Nice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×