Hailey sem er 25 ára gömul vakti fyrst athygli árið 2014 þegar fyrirsætuferill hennar fór á flug. Hún vann með tískurisum á borð við Ralph Lauren, Tommy Hilfiger og Guess.
Sviðsljósið var þó ekki nýtt fyrir Hailey þar sem hún er fædd inn í Baldwin leikarafjölskylduna. Faðir hennar er leikarinn Stephen Baldwin og er hún því bróðurdóttir stórleikarans Alec Baldwin.
Það var svo árið 2015 sem Hailey varð ein umtalaðasta stúlka heims, þegar hún stal hjarta poppstjörnunnar Justin Bieber. Parið gifti sig svo árið 2018 og hafa allra augu verið á Hailey síðan, enda er hún líklega að lifa draum margra stúlkna- að vera frú Bieber.
Tískudrottningin Bieber
Þrátt fyrir heimsfrægð eiginmannsins hefur Hailey með árunum tekist að setja nýja merkingu á bak við Bieber eftirnafnið. Nú er nafnið ekki eingöngu tengt við poppprinsinn, heldur einnig við tískudrottninguna Hailey Bieber.
Hailey er einstaklega töff þegar kemur að klæðaburði og er hún alltaf óaðfinnanleg til fara. Það sem gerir stíl Hailey þó einstakan er hve einfaldur hann er í raun og veru.
Það sem einkennir helst hversdagsstíl Hailey eru stórar yfirhafnir, blazer-jakkar, strigaskór og náttúrulegir litatónar. Þá sést hún sjaldan án sólgleraugna, sem eru eitt af hennar sérkennum.









Keppast um að endurskapa stílinn
Þrátt fyrir að Hailey versli sínar flíkur í rándýrum hátískuhúsum, ætti að vera auðvelt að finna samskonar flíkur í nánast hvaða fatabúð sem er, ef þær eru ekki þegar til inni í fataskáp. Því hafa nú margar ungar konur tekið upp á því að endurskapa stíl Hailey.
Á samfélagsmiðlinum TikTok er að finna fjölmörg myndbönd af hinum ýmsu konum endurgera stílinn sem virðist klæða konur af öllum stærðum og gerðum.
Hér að neðan má sjá nokkur slík myndbönd.
Hið eftirsóknarverða stílhreina lúkk
Það er þó ekki aðeins klæðaburður Hailey sem þykir töff, heldur þykir hún einstaklega smart þegar kemur að hári og förðun. Hailey er besta dæmi um „stílhreinu skvísuna“ (e. clean girl) sem er hugtak sem notað hefur verið til þess að lýsa ákveðnu útliti kvenna.
Um er að ræða stílhreint útlit þar sem mínimalísk förðun, náttúrulegar augabrúnir, ljómi og aftursleikt hár eru í forgrunni. Þetta er lúkk sem hefur verið afar eftirsóknarvert síðasta árið og þar er Hailey ein helsta fyrirmyndin.
Það má því með sanni segja að Hailey sé einn fremsti tískumógúll sinnar kynslóðar og skulum við leyfa myndunum hér að neðan að tala sínu máli.























