Fleiri fréttir

Bað kærustunnar á bólakafi í Silfru

Sænskur maður, John Kullvik, bað kærustu sinnar, Elinar Hedlund, í köfun í Silfru á Þingvöllum í gær. Parið er í fríi hér á landi og dvelur nú í Reykjavík.

Opnuðu fyrir brunahana víðsvegar um borgina

Óprúttnir aðilar gerðu það að leik sínum að opna fyrir brunahana á um það bil átta stöðum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þurfti slökkviliðið að sinna verkefnum í um tvo klukkutíma vegna þessa.

Gagnrýna aðbúnað og slátrun loðdýra

Félagasamtökin Velbú telja að dýr í íslenskum loðdýrabúum séu haldin í allt of litlum búrum og gagnrýna jafnframt að dýrin séu aflífuð með útblæstri frá vélum, sem er viðtekin venja. Forsvarsmaður loðdýrabænda vísar gagnrýninni á bug og telur hana lýsa þekkingarleysi á iðnaðinum.

Evrópusambandið vantar íslenska túlka

Túlkaþjónusta framkvæmdastjórnar ESB gerir ráð fyrir að þurfa allt að fjörutíu íslenskumælandi túlka til starfa í Brussel, fast- og lausráðna. Framkvæmdastjórnin aðstoðar því Háskóla Íslands við að bjóða upp á nám í ráðstefnutúlkuní vetur. Nemargeta einnig sótt um námsstyrki. Yfirmaður skipulags- og ráðningasviðs þjónustunnar, David Baker, hefur verið í Háskólanum að hæfnisprófa fólk vegna þessa.

Hellti sér reglulega yfir lögregluna

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Vesturlands til að greiða 75 þúsund krónur í sekt í ríkissjóð fyrir að ærast í ölvunarástandi á almannafæri, meðal annars með því að liggja á dyrabjöllu lögreglustöðvarinnar á Akranesi.

Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal áminnt

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að áminna kalkþörungaverksmiðju Íslenska Kalkþörungafélagsins á Bíldudal til að ýta enn frekar á um umbætur í mengunarmálum hjá fyrirtækinu. Umhverfisstofnun hefur í allnokkurn tíma gert kröfur um úrbætur sem fyrirtækið hefur orðið við, til dæmis með bættum og breyttum mengunarvarnabúnaði. Þrátt fyrir það hefur ekki náðst stjórn á styrk ryks í útblæstri en í síðustu mælingu reyndist ryk vera rúmlega sjöfalt meira en starfsleyfi segir til um. Mörk fyrir styrk ryks í útblæstri eru 20 mg á normalrúmmetra en við síðustu mælingu mældist styrkur ryks 150 mg.

Teknar verði upp húsnæðisbætur

Samráðshópur velferðarráðuneytisins um húsnæðisstefnu hefur skilað tillögum um aðgerðir á sviði húsnæðismála. Meðal annars er lagt til að teknar verði upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta til að stuðla að jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera óháð búsetuformi. Samráðshópurinn var skipaður í nóvember 2011. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður hópsins.

Enginn ógnar Obama ennþá

Þrátt fyrir þverrandi vinsældir er Barack Obama Bandaríkjaforseti enn sigurstranglegastur meðal líklegra frambjóðenda í forsetakosningum næsta árs. Helgast það fyrst og fremst af óánægju repúblikana með þá valkosti sem nú eru í boði.

Naktir í ræktinni: Fjórir í fyrsta tímanum

Eigendandi líkamsræktarstöðvar í Baskalandi, á Norður-Spáni, hefur farið heldur óhefðbundna leið til að reyna að ná til nýrra viðskiptavina í kreppunni. Á líkamsræktarstöðinni Easy Gym í Arrigorriaga er nú hægt að fara nakinn í ræktina. "Ég er sjálf ekki strípalingur, en mér finnst þetta samt ekkert tiltökumál. Þetta frumkvæði snýst bara um að græða peninga," segir Merche Laesca, eigandi Easy Gym í samtali við BBC. Laesca vann heimavinnuna áður en hún ákvað að fara þessa leið, en hún komst að því að í nágrenninu eru tvær sundlaugar þar sem fólki býðst mánaðarlega að fara nakið í laugina, og njóta þessir sérstöku nektartímar mikilla vinsælda. Þá eru minnst tólf strendur á svæði Baska þar sem fólk hittist nakið, fer í sólbað og spilar á spil. Ofan á allt saman er síðan árlegt fjöldahlaup um ströndina í borginni Sopelana. Laesca var því handviss um að hún hefði þarna fundið hið fullkomna viðskiptatækifæri. Hún varð því fyrir nokkrum vonbrigðum þegar aðeins fjórir mættu í fyrsta tímann. "Þeim sem mættu fannst þetta samt alveg frábært,“ segir hún. Frá og með næsta mánuði verður Easy Gym opið seinni hluta laugardags og allan sunnudaginn sérstaklega fyrir þá sem vilja æfa naktir. Eigandi hefðbundinnar líkamsræktarstöðvar segir í samtali við BBC, af þessu tilefni, að honum finnist fátt óhreinlegra en nakið fólk í tækjasalnum. "Þegar þú ert að æfa fer svitinn í fötin þín. Hvert fer svitinn ef þú ert nakinn? Á tækin? Á gólfið? Á fólkið sem er að æfa næst þér?,“ spyr hann. Laseca hefur þó séð fyrir þessu og býður fólki handklæði til að setja á tækin. Þannig er líka komið í veg fyrir að fólk renni til. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort viðskiptin glæðis hjá Easy Gym. Ljóst er að framtakið hefur vakið mikla athygli og þegar hefur jógakennari haft samband við Laseca og boðist til að kenna hinum nöktu jóga.

Bannað að breyta verki höfundar án leyfis

Einn helsti sérfræðingur landsins í höfundarrétti myndverka telur sýningarstjóra á Nýlistasafninu hafa verið óheimilt að nýta og breyta ljósmynd annars manns til að kynna umdeilda sýningu safnsins. Hvenær stelur maður mynd - og hvenær býr maður til nýja úr hráefni frá öðrum? Þetta er gráa svæðið í deilunni um hvort sýningarstjórar á Nýlistasafninu hafi - í fyrsta lagi, mátt taka bók með málverkum Eggerts Péturssonar og ata hana matarleifum. Og í öðru lagi hvort þeir hafi mátt taka þessa ljósmynd Jónasar Björgvinssonar, breyta henni og nota í kynningarskyni. Útgefandi Eggerts krafðist þess að bókin yrði fjarlægð og Jónas krefst skaðabóta. Þegar Stöð 2 ræddi við einn sýningastjóranna í gær - brást hann skjótt við og reif burtu þann hluta myndarinnar sem Jónas ljósmyndaði - en sagði um leið að þetta væri svartur dagur í sögu tjáningarfrelsis á Íslandi. Knútur Bruun var um áratugaskeið formaður Myndstefs. Hann bendir á að samkvæmt höfundalögum má ekki breyta verki höfundar án leyfis - en sýningarstjórarnir viðurkenna fúslega að það hafi þeir gert. Knútur segir fráleitt að sæmdarréttur sé úreltur.

Einstakur viðburður í sögunni: Páfinn svarar spurningum í sjónvarpinu

Benedikt páfi XVI hefur verið skráður á spjöld sögunnar sem fyrsti páfinn til að koma fram í sjónvarpsþætti og svara aðsendum spurningum. Þátturinn var sýndur á ítölsku sjónvarpsstöðinni Rai síðdegis í dag, á föstudaginn langa. Þúsundir sendu inn spurningar og voru sjö valdar úr. Þátturinn var ekki í beinni útsendingu heldur var það tekið upp fyrir viku þegar páfinn sat í bókasafni sínu í Vatíkaninu og svaraði spurningunum. Athygli vakti að engar spurningar komust í gegn sem tengdust kynferðislegu ofbeldi sem kaþólskir prestar hafa beitt sóknarbörn sín. Fyrsta spurningin sem páfinn svaraði kom frá sjö ára japanskri stúlku sem hafði orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar jarðskjálftans mikla og flóðbylgjunnar í Japan. Hún spurði páfann af hverju hún og önnur börn þyrftu að vera svona hrædd. Páfinn sagðist sjálfur hafa spurt sig nákvæmlega þessarar spurningar. „Við höfum ekki svörin en við vitum að Jesús þurfti að þjást rétt eins og þú," sagði hann við litlu stúlkuna. Önnur spurningin var frá ítalskri móður drengs sem hefur verið í dái um langan tíma. Móðirin spurði hvort sonur hennar hefði enn sál, og sagði páfinn að sálin hefði hana sannarlega enn. „Ástandi hans má kannski helst líkja við ástand gítars með slitna strengi, og því gefur hann ekki lengur frá sér tóna," sagði hann. Sál drengsins gæti ekki lengur spilað, ef svo mætti að orði komast, en hún væri enn á sínum stað. Sjónvarpskonan Rosario Carello átti frumkvæði að því að fá páfann í þáttinn, og segir hún að páfinn hafi einfaldlega svarað spurningu hennar játandi þegar hún bað hann að koma í þáttinn. Hingað til hefur Benedikt fáfi XVI ekki veitt fjölmiðlamönnum viðtöl nema í flugvélum á ferðalögum hans erlendis, að því er BBC greinir frá.

Af hverju páskaegg?

"Hér á landi voru páskaegg fyrst auglýst og boðin til sölu um árið 1920 hjá Björnsbakaríi í Reykjavík. Eins og með ýmislegt annað er þó líklegt að Íslendingar hafi kynnst páskaeggjum í Danmörku fyrr og þau farið að berast hingað til lands um og upp úr aldamótunum 1900." Þetta kemur fram á Vísindavefnum sem hluti af svari við spurningunni: "Hvaðan koma páskasiðirnir um kanínur, hænur, egg og annað slíkt?" "Ekki er alveg ljóst hvenær farið var að setja málshætti inn í páskaeggin hér á landi en það hefur þó tíðkast lengi. Nói fór að framleiða súkkulaði í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar og Freyja um svipað leyti. Forsvarsmenn Nóa-Síríusar telja að framleiðsla páskaeggja úr súkkulaði hafi hafist að nokkru marki á fimmta áratugnum og sennilega hafi þá fljótlega verið farið að setja málshætti inn í eggin ásamt ýmsu sælgæti. Að setja málshætti inn í páskaegg með þessum hætti virðist vera séríslenskt fyrirbæri þótt rekja megi þann sið að setja spakmæli á eða inn í páskaegg aftur til 17. aldar. Íslenskir súkkulaðigerðarmenn lærðu listina í Danmörku og hafa eflaust þar fengið hugmyndina að því að setja málshætti inn í eggin. Íslendingar virðast vera eina þjóðin sem haldið hefur þessum sið allt fram á þennan dag," segir ennfremur á Vísindavefnum. Talið er að tenginguna milli eggja og páska megi rekja til þess að hænsnfuglar, sem margir hverjir gera hlé á varpi yfir háveturinn, byrja aftur að verpa um páskaleytið. Egg voru meðal þess sem ekki mátti borða á lönguföstu, sjö vikna föstunni frá öskudegi og fram að páskum. Margir voru því sérlega fegnir að fá egg á páskunum. Svarið á Vísindavefnum má lesa í heild sinni með því að smella hér. http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=5823

Tala látinna á Sýrlandi hækkar enn: Mótmælendur skotnir í tugatali

Áfram berast fregnir af mannfalli á Sýrlandi og er tala látinna nú komin upp í 40. Fréttastofa greindi frá því fyrr í dag að öryggissveitir hefði skotið minnst 15 mótmælendur í höfuðborginni Damaskus. Samkvæmt fréttavef BBC er nú búið að skjóta fjörutíu manns en öryggissveitirnar réðust að mótmælendum með byssum og táragasi. Um 40 þúsund manns höfðu safnast saman í úthverfi borgarinnar. Mikil ólga ríkir í landinu og síðustu vikur hafa tugir þúsunda Sýrlendinga hópast út á götur og krafist þess að forseti landsins víki. Samkvæmt Amnesty International hafa 220 manns verið drepnir í Sýrlandi á síðustu vikum.

Uppröðun tónlistarmanna á AFÉS

Fólkið bókstaflega streymir til Ísafjarðarbæjar þar sem rokkhátíðin „Aldrei fór ég suður“ verður haldin um helgina, en talað er um að íbúafjöldi bæjarins tvöfaldist þá heldi sem hátíðin fer fram. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gengur þar allt sinn vanagang. Lögregla sinnir umferðareftirliti við Ísafjarðardjúpið og á síðustu tveimur dögum hefur þurft að hafa afskipti af tæplega tuttugu manns vegna hraðakstur. Sá sem hraðast ók var á 131 kílómetra hraða. Á vef tónlistarhátíðarinnar, Aldrei.is, hefur nú verið birtur listi yfir þá röð sem tónlistarmenn koma fram í, en hvert tónlistaratriði stendur í 20 mínútur. Föstudagur: Virtual Motion Sóley Prinspóló Valdimar Pétur Ben Nýdönsk Hljómsveitin Ég USI Mr. Silla Jónas Sig Sammi Sam Yoda remote Laugardagur: Páll Óskar Klassart Back to back Perla Sig Lars Dueppler Lúðrasveit TÍ ásamt Mugison Lazyblood Miri Bjartmar Sokkabandið Grafík PLX Benni Sig Ensími FM Belfast Sólstafir Vintage Caravan

Konungleg brúðkaupspítsa - kjóllinn úr osti

Eigendur Papa John´s Pizza í Bretlandi fengu til liðs við sig matarlistamann sem gerði mósaíklistaverk úr áleggi sem sýndi brúðhjónin verðandi, Willam prins og Kate Middleton. Konunglega brúðkaupið fer fram þann 29. apríl og hefur gripið um sig eins konar æði í Bretlandi vegna þessa. Fjöldi fyrirtækja hefur reynt að nýta brúðkaupið til að vekja athygli á vörum sínum og þjónustu, og er leið Papa John´s Pizza vægast sagt frumleg. Á pizzunni góðu er brúðarslör Kate gert úr sveppum og kjóllinn hennar úr osti, en fatnaður Williams er búinn til úr salami-pylsu og papriku. Pizzuna þarf að sérpanta.

Fimmtán mótmælendur drepnir á Sýrlandi

Fimmtán mótmælendur á Sýrlandi, hið minnsta, eru látnir eftir að öryggissveitir réðust að þeim með skotvotpnum og táragasi. Dauðsföllinn áttu sér stað í höfuðborginni Damascus, samkvæmt Sky News fréttastofunni. Um fjörutíu þúsund mótmælendur höfðu safnast saman í Douma, úthverfu Damascus, og söngluðu: Fólkið vill stjórnina frá Þetta er sama ákall mótmælenda og áður kom frá borgurum í Egyptalandi og Túnis. Fregnir berast af mótmælum um allt Sýrlandi, meðal annars í strandborginni Banaias, þar sem mótmælin hófust fyrir um mánuði.

Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði

Hálkublettir eru á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Allur akstur er bannaður á mörgum hálendisvegum vegna aurbleytu og hættu á skemmdum. Þeir sem ætla að leggja leið sína upp á hálendið eru beðnir að kynna sér hvar umferð er leyfð áður en lagt er af stað. Framkvæmdir Vinna stendur yfir við annan áfanga af tvöföldun Hringvegar (Vesturlandsvegar) í Mosfellsbæ. Unnið er á kaflanum milli Álafossvegar og Þingvallavegar. Vegfarendur eru hvattir til að sýna fyllstu aðgát og fylgja þeim merkingum sem uppi eru hverju sinni

Aðbúnaður dýra í íslenskum landbúnaði - málþing

Dýraverndunarsinnar, framleiðendur búfjárafurða, bændur og dýralæknar koma saman á málþingi þann 26. apríl til að ræða aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði. Mikil vakning hefur orðið í þessum málaflokki að unfandörnu og umræða sprottið um hvernig farið er með dýr á íslenskum búum. Málþingið fer fram í Norræna húsinu milli klukkan 20 og 23. Dagskrá er sem hér segir: Sjónarmið neytenda - Linda Pétursdóttir Ódýr matur ,dýrkeypt blekking - Ólafur Dýrmundsson frá Dýraverndarsamtökum Íslands Velferð dýra - Íris Lilja Ragnarsdóttir og Sif Traustadóttir Aðgangur að lífrænu hráefni - Oddný Anna Björnsdóttir Pallborð eftir erindin: Frummælendur, ásamt Kristjáni Oddssyni bónda og Geir Gunnari Geirssyni frá Stjörnugrís hf.

Vel heppnað bingó: Löggan keyrði bara framhjá

Veglegir vinningar, páskaegg og bækur, voru í árlegu páskabingói Vantrúar sem haldið var á Austurvelli upp úr hádeginu. Auk þess gat fólk fengið kaffi til að ylja sér og kleinur með. Bingóið hefur verið haldið síðustu ár á föstudaginn langa í því skyni að mótmæla því sem meðlimir Vantrúar kalla úrelta helgidagalöggjöf, en allt skemmtanahald, þar á meðal bingó, er bannað með lögum á þessum degi. Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, segir þá félaga alltaf hafa fengið að halda bingóið án afskipta lögreglu. "Í fyrra sáum við lögreglubíl aka framhjá," segir hann, en það var allt og sumt. Sama var uppi á teningnum í ár, lögreglan ók framhjá en aðhafðist ekkert. Lögreglan sá engu að síður ástæðu til að senda frá sér tilkynningu nú fyrir páskana þar sem minnt var á bingóbannið, og skemmtanabann yfir höfuð á föstudaginn langa. Á Austurvelli í dag var spilað á fimmtíu bingóspjöld og segir Reynir að svo margir hafi mætt í ár að ekki hafi allir fengið spjöld. "Því miður átti við ekki fleiri spjöld," segir hann. Nokkrar umferðir voru spilaðar og fengu öll börn sem komu lítið páskaegg með sér heim. "Þetta var bara mjög vel heppnað," segir Reynir.

Drengurinn slapp betur en pabbinn: Enn á spítalanum

Feðgar sem fengu reykeitrun eftir eldsvoða í Kópavogi í nótt eru enn á slysadeild Landspítalans og verða þar í eftirliti fram eftir degi. Líðan þeirra er ágæt eftir atvikum. Drengurinn, sem er á leikskólaaldri, virðist hafa sloppið betur en faðir hans. Fréttastofa greindi frá atvikinu í morgun en eldurinn kom upp um klukkan fjögur í nótt. Þeir voru báðir sofandi en náðu að koma sér sjálfir út áður en slökkvilið kom á vettvang. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá þvottavél eða þurrkara á baðherberginu.

Forsetinn hefur staðfest fjölmiðlalögin

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur staðfest ný heildarlög um fjölmiðla. Alþingi afgreiddi lögin þann 15. apríl og voru þau þá send forsetanum til staðfestingar. Staðfesting forsetans á lögunum hefur verið tilkynnt í Stjórnartíðingum og er þar dagsett þann 20. apríl, fyrir tveimur dögum.

Páskabingó Vantrúar - mótmæla helgidagalöggjöfinni

Undanfarin ár hefur skapast hefð fyrir páskabingói á Austurvelli á föstudaginn langa og í ár verður engin undantekning á því. Það eru meðlimir Vantrúar sem standa fyrir bingóinu sem hefst klukkan hálf eitt. "Við munum safnast saman klukkan 12:30 og sýna stjórnvöldum með þessum fallegu mótmælaaðgerðum hvað okkur finnst um löngu úrelta helgidagalöggjöfina. Veglegir vinningar, bækur og páskaegg. Svo bjóðum við upp á kakó og kökur. Allt ókeypis! Öll börn fá glaðning,“ segir á heimasíðu Vantrúar. Með því að smella á tengilinn hér að ofan má sjá myndband frá páskabingóinu í fyrra. Samkvæmt helgidagalöggjöfinni er óheimilt að halda eða taka þátt í bingói á föstudaginn langa. Lögreglan sendi út tilkynningu nú fyrir páskana þar sem hún minnti á þetta bann. Vantrúarmenn hafa þó að mestu fengið að halda sitt bingó óáreittir í gegn um árin.

Einn gisti fangageymslur á Ísafirði

Aðfararnótt föstudagsins langa var að mestu róleg um allt land. Á Ísafirði gisti einn fangageymslur vegna ölvunarláta en að sögn lögreglunnar var lítið um læti þrátt fyrir mikinn mannfjölda í bænum vegna rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég Suður. Talið er að íbúafjöldi í bænum muni tvöfaldast um helgina en tónleikarnir hefjast í kvöld. Á Akureyri, Egilsstöðum, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Selfossi var nóttin mjög róleg og tíðindalaus. Lögreglan um allt land var sammála um að fólk hafi ef til vill tekið því rólega í gærkvöldi þar sem nóg sé framundan í skemmtanahaldi um páskana.

Reykjavíkurborg á Facebook

Borgarstjórinn Jón Gnarr hefur um hríð haldið úti dagbók sinni á Facebook. Nú hefur sjálf Reykjavíkurborg verið skráð á Facebook og er þar hægt að fylgjast með nýjustu fréttum af því sem er að gerast í borginni. Þegar þessar línur eru skrifaðar hafa 950 manns „líkað" við síðuna. Þar má nú meðal annars sjá fréttir um sumarstörf á vegum borgarinnar fyrir atvinnuleitendur og námsmenn, og að nýr upplýsingavefur á pólsku hefur verið opnaður þar sem pólskumælandi íbúar geta lesið sér til um þjónustu borgarinnar. Facebook-síða Reykjavíkurborgar er hér. http://www.facebook.com/Reykjavikurborg

Gott skíðaveður á Norðurlandi

Norðlendingar geta sannarlega skellt sér á skíði í dag. Opið er í Hlíðarfjalli frá klukkan níu til fjögur síðdegis. Í Boggvisstaðarfjalli opnar klukkan tíu og lokar klukkan fjögur. Klukkan hálf átta í morgun var sjö gráðu hiti í Hlíðarfjalli, fimm til átta metrar á sekúntu, sól og bjartviðri. Óvæntur getur mætir í skíðaskálann klukkan tíu. Skíðaskóli fyrir börn á aldrinum fimm til tólf ára verður opinn alla daga fram yfir páska frá klukkan tíu til tvö síðdegis.

Feðgar fluttir sótugir á slysadeild - eldur kviknaði á baðherbergi

Feðgar voru fluttir á slysadeild með reykeitrun eftir að eldur kom upp í íbúð við Furugrund í Kópavogi í nótt. Eldurinn kom upp í baðherbergi íbúðarinnar. Ekki er hægt að fullyrða um eldsupptök en grunur leikur á kviknað hafi í þvottavél eða þurrkara. Drengurinn er á leikskólaaldri og voru þeir báðir sofandi þegar eldurinn kom upp. Þeir komu sér sjálfir út. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru þeir báðir ansi sótugir og illa farnir af reyk þegar slökkvilið kom á vettvang. Eldurinn hafði að mestu koðnað niður þegar slökkviliðsmenn mættu á staðinn og gekk slökkvistarf vel. Miklar reykskemmdir urðu á íbúðinni og er hún ekki íbúðarhæf, næstu daga hið minnsta. Lítill reykur kom fram á stigagang fjölbýlishússins. Íbúar annarra íbúða komu sér sjálfir út.

Leita að líkum neðansjávar

Bandarískir og japanskir vísindamenn leita nú að líkum í norðurhluta Japans með aðstoð neðansjávarvélmennis.

Sýknaðir af hópnauðgun í Pakistan

Hæstiréttur Pakistans sýknaði fimm af sex mönnum sem voru áður dæmdir fyrir að nauðga Mukhtaran Mai árið 2002. Mai var nauðgað eftir að Mastoi ættbálkurinn fyrirskipaði að henni skyldi verða hópnauðgað vegna þess að bróðir hennar, sem var þá tólf ára gamall, átti að hafa átt í ástarsambandi við konu af sama ættbálki og fyrirskipaði nauðgunina.

Opnunartímar yfir páskana

Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, eru bannaðar á ákveðnum tíma um bænadaga og páska samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni.

Sakar seðlabankann um hræðsluáróður

Formaður Framsóknarflokksins segir hræðsluáróður Seðlabankans eftir Icesave atkvæðagreiðsluna vera regin hneyksli. Matsfyrirtækið Moody's ákvað í gær að halda lánshæfismati Íslands óbreyttu þrátt fyrir höfnun Icesave samninganna.

Nafn konunnar sem lést í umferðaslysi

Konan sem lést í umferðarslysinu á móts við bæinn Jörfa í Víðidal í Húnaþingi vestra sl. Þriðjudagskvöld 19 apríl, hét Steinunn Guðmundsdóttir og var hún búsett að Jörfa. Steinunn var fædd 20.júlí 1942. Steinunn lætur eftir sig eiginmann og 3 uppkomna syni.

Syfjaðir flugumferðastjórar reknir

Bandaríska flugumferðaeftirlitið hefur rekið tvo flugumferðastjóra fyrir að sofa í vinnunni. Málið hefur verið hið vandræðalegasta fyrir flugmferðastjórn í Bandaríkjunum en í ljós kom að annar þeirra svaf á sama tíma og flugvél þurfti að lenda.

Mikið um sjúkraflutninga

Mikið hefur verið um sjúkraflutninga hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í dag en alls hafa sjúkraflutningamenn farið í 35 útköll. Það er heldur mikið miðað við frídag að sögn varðstjóra slökkviliðsins. Annars hefur dagurinn verið rólegur hjá slökkviliðinu.

Krefur grasrótasamtök svara um fjölmiðlalög - ekki "T-fínt"

„Ég eiginlega trúði þessu ekki fyrst," segir Guðmundur Franklín Jónsson, sem er einn af þeim sem standa að undirskriftasöfnun gegn nýjum fjölmiðlalögum sem voru samþykkt á Alþingi um miðjan apríl. Hann fékk spurningalista frá Elíasi Jóni Guðjónssyni, aðstoðarmanni ráðherra, þar sem hann er krafinn svara um fullyrðingar sem hann heldur fram.

Snarpur skjálfti í Japan

Snarpur jarðskjálfti upp á rúmlega sex stig varð í Japan um klukkan hálf tvö í dag að íslenskum tíma.

Barirnir komu Íslendingnum á Svalbarða á óvart

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á Svalbarða á undanförnum árum. Þar sem áður voru einkum kolanámuverkamenn er nú vísindasamfélag og vaxandi ferðaþjónusta, - og þar býr auðvitað Íslendingur.

Varað við vatnavöxtum við Eyjafjallajökul

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun úrkomubelti fara hægt austur yfir landið í nótt. Búast má við mikilli úrkomu í hlíðum Eyjafjallajökuls og við það skapast hætta á vatnavöxtum í ám umhverfis jökulinn og er sérstaklega varað við leiðinni inn í Þórsmörk.

Aðstoðarmaður ráðherra: Úrbætur nauðsynlegar ef rétt reynist

"Það eru alvarlegar fullyrðingar sem koma fram á síðunni. Ef þær standast þá er það alvarlegt mál og það þarf að spyrjast fyrir um það,“ segir Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður mennta- og menningamálaráðherra, sem sendi Guðmundi Franklín Jónssyni tölvupóst þar sem hann óskaði eftir svörum um meinta ritskoðun sem ný fjölmiðlalög eiga að hafa í för með sér.

Sjá næstu 50 fréttir