Fleiri fréttir

Leitaði til neyðarmóttöku vegna nauðgunar

Ein kona hefur leitað til bráðamóttöku Landsspítalans vegna nauðgunar um Verslunarmannahelgina. Atvikið átti sér stað í Eyjum, en samkvæmt Eyrúnu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingi, er von á tveimur til þremur konum til viðbótar í dag.

Fluttur með þyrlu eftir fall af sviði

Maður á þrítugsaldri var fluttur frá Ísafirði með sjúkraþyrlu til Reykjavíkur í nótt þar sem hann hafði fallið af sviði og hlotið hryggáverka. Þar fór lokahóf Mýrarboltans fram, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gekk skemmtanahald næturinnar vel fyrir sig þrátt fyrir talsverða ölvun. Varðstjóri þakkar það öflugu eftirliti Lions-klúbbs manna.

Leituðu að erlendum ferðamönnum

Lögreglan á Vestfjörðum gerði mikla leit að erlendum ferðamönnum á miðnætti í nótt. Mennirnir, sem voru á róðrarbáti, gáfu upp ferðaáætlun, sem þeir stóðu ekki við og voru þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út ásamt björgunarsveitum.

Ægir bjargaði 58 flóttamönnum - myndir

Varðskipið Ægir bjargaði á laugardag 58 flóttamönnum sem skildir höfðu verið eftir í gilskorningi á Radoposskaga á Krít, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Í hópnum voru 30 karlmenn, 16 konur, þar af 2 ófrískar og 12 börn allt niður í ársgömul. Ægir hefur að undanförnu sinnt eftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins.

Rennslið sveiflast til

Rennsli Skaftár heldur áfram að sveiflast til. Frá því að hlaupið hófst í síðustu viku hafa verið talsverðar dægursveiflur og því er ekki hægt að segja til um hvort hlaupið hafi endanlega náð hámarki sínu og hvort því ljúki fljótlega. Á miðnætti var rennslið tæplega 350 rúmmetrar á sekúndu en er nú um 330 rúmmetrar. Í hlaupinu í Skaftá í fyrra var rennslið þegar það var mest um 600 rúmmetrar á sekúndu.

Fjórtán þúsund manns sungu með - myndir

Þjóðhátíð lauk í gærkvöldi með brekkusöng og flugeldum en talið er að 14 þúsund manns hafi tekið undir með Árna Johnsen, Sæþóri Vídó og Jarli Sigurgeirssyni í árlegum brekkusöng í Herjólfsdal. Færri gestir sóttu hátíðina í ár en á síðasta ári. Þrátt fyrir það er þjóðhátíðargestur sem Vísir ræddi við í morgun á því að hátíðin í ár hafi ekki gefið fyrri hátíðum neitt eftir. "Það er alltaf gaman á þjóðhátíð. Eyjamenn eru alveg með þetta.“

Vitorðsmönnum verður refsað

Allir þeir sem hafa veitt Anders Behring Breivik aðstoð við að skipuleggja fjöldamorðin í Útey og Osló gætu átt yfir höfði sér refsidóma. Í vefútgáfu norska dagblaðsins Verdens gang er haft eftir lögreglu að þunginn í rannsókninni á fjöldamorðunum sé nú kanna hvort Breivik hafi átt einhverja vitorðsmenn. Breivik tók sér mörg ár til að skipuleggja sprengjuárásina í Osló og morðin í Útey og hver sá sem hefur hvatt hann til hryðjuverkanna á þeim tíma gæti borið refsiábyrgð.

Árlegum brekkusöng Árna lauk með flugeldasýningu

Talið er að um 14 þúsund manns hafi verið samankomnir á árlegum brekkusöng Árna Johnsen í Herjólfsdal sem lauk rétt eftir miðnætti með glæsilegri flugeldasýningu. Varað hafði verið við stormi í nótt en veður var betra en ráð hafði verið gert fyrir, og leituðu fáir skjóls í íþróttahúsi bæjarins sem var opið þjóðhátíðargestum.

Tvær líkamsárásir á Akureyri

Á bilinu 10-12 þúsund manns voru á lokatónleikum Einnar með öllu á Akureyri í gærkvöldi en þeir fóru fram á flötinni utan við Samkomuhúsið. Meðal þeirra sem komu fram voru Jón Jónsson, Dikta og Helgi Björnsson. Þá var flugeldum skotið upp og voru dansleikir haldnir víða fram eftir nóttu.

Sami maðurinn handtekinn þrisvar sinnum með dóp

Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók í nótt karlmann sem réðst á starfsmann skemmtistaðar í bænum. Á honum fundust um 10 grömm af hreinu amfetamíni. Þetta var í þriðja sinn sem lögregla hafði afskipti af manninum um helgina og í öll skiptin fundust fíkniefni á honum. Maðurinn var fyrst stöðvaður við komuna til Eyja á föstudaginn og þá handtóku lögreglumann hann einnig á laugardaginn. Að sögn lögreglu er maðurinn þekktur afbrotamaður af höfuðborgarsvæðinu.

Sérsveitarmenn handtóku mann sem sagðist vera með byssu

Sérsveitarmenn á vegum Ríkislögreglustjóra handtóku karlmann borð í bát í höfninni í Vestmannaeyjum í nótt. Maðurinn sem er 24 ára sagðist vera með byssu og ætla að vinna sér skaða. Sérsveitarmenn sem voru að störfum í Eyjum um helgina fóru á vettvang og tryggðu nánasta umhverfi áður en þeir handtóku manninn. Engin byssa fannst um borð. Maðurinn gisti í fangageymslu í nótt. Hann hefur áður komið við sögu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Netanyahu lofar breytingum

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lofar breytingum og segist ætla að koma til móts við óánægjuraddir Ísraela. Breytinga sé þörf hvað nálgun og áherslur í efnahagsmálum varðar sem bein áhrif hafi á helstu stoðir samfélagsins.

Dagblað sektað vegna ritdóms

Breska blaðið The Daily Telegraph hefur verið sektað vegna ritdóms Lynns Barber frá árinu 2008 um bókina Seven Days in the Art World sem Sarah Thornton skrifaði.

Hald lagt á minna magn af fíkniefnum

Hátíðarhöld hafa gengið vel um allt land en lögregla hefur lagt hald á minna magn af fíkniefnum en síðustu ár. Í Vestmannaeyjum hafa 29 fíkniefnamál komið upp það sem af er Þjóðhátíð samanborið við 37 mál í fyrra. Magn fíkniefna nær ekki hundrað grömmum að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum en var um 300 grömm á sama tíma í fyrra. Lögregla segir færri gesti mögulega útskýra þessa fækkun fíkniefnamála en einnig hefur stíft eftirlit lögreglu mögulega fælt einhverja óprúttna aðila frá. Þjóðhátíð hefur annars gengið vel en í nótt var engin líkamsárás tilkynnt og engin kynferðisafbrot hafa komið á borð lögreglunnar

Annie Mist efst

Annie Mist Thórisdóttir, 21 árs íþróttakona úr Kópavogi, er sem stendur í fyrsta sæti á heimsleikunum í Crossfit í Los Angeles í Bandaríkjunum. Fyrstu grein af fjórum er lokið í dag. Keppni hefur staðið yfir síðan á föstudag og lýkur í kvöld. Beri Annie sigur úr bítum hlýtur hún 30milljónir króna í verðlaunafé svo og titilinn Fittest Women on Earth.

Umferð hefur gengið vel á hálendinu

Umferð hefur gengið vel um verslunarmannahelgina á hálendinu. Svo virðist sem minni umferð sé núna á hálendinu en hefur verið undanfarnar verslunarmannahelgar, að því er fram kemur í tilkynningu frá hálendisvakta Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Nær nýju hámarki í kvöld

Rennsli í Skaftá hefur aukist í dag og er búist við að það nái nýjum toppi fyrir miðnætti. Undanfarna daga hafa verið talsverðar dægursveiflur og því er ekki hægt að segja til um hvort hlaupið hafi endanlega náð hámarki sínu og hvort því ljúki fljótlega. Sérfræðingur á Veðurstofunni segir rennslið nú vera um 330 rúmmetrar á sekúndu en í hádeginu var það um 300 rúmmetrar. Í hlaupinu í Skaftá í fyrra var rennslið þegar það var mest um 600 rúmmetrar á sekúndu.

Mótmælendur handteknir í Ísrael

Tugir mótmælenda voru handteknir víðsvegar um Ísrael þegar fram fóru einhver víðtækustu mótmæli í landinu í áratugi. Talið er að yfir 150 þúsund manns hafi komið saman í 12 borgum í gær til að mótmæla auknum álögum og um leið undirstrika nauðsyn þess að víðtækar breytingar verði gerðar á ísraelsu samfélagið. Fólkið vill auk þess hærri meðallaun og að ódýrara verði að ala upp börn í Ísrael. Fjölmenn mótmæli voru í Tel Aviv, Jerusalem og Haifa sem eru stærstu borgir Ísraels. Þá komu að því er talið um fimm þúsund mótmælendur saman fyrir utan og í grennd við heimili Binyamin Netanyahu, forsætisráðherra, í Jerúsalem.

Varað við snörpum vindstrengjum

Búast má við mjög snörpum vindstrengjum við fjöll á suðaustanverðu landinu og syðst. Dregur úr vindi þar síðdegis á morgun, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Einnig má búast við nokkuð hvössum hviðum norðvestantil á landinu í nótt og fram eftir morgundegi. Búist er við stormi í Vestmanneyjum um tíma seint í kvöld og í nótt.

Enn eykst stuðningur við norska Verkamannaflokkinn

Fylgi norska Verkamannaflokksins, flokks Jens Stoltenbergs forsætisráðherra, hefur aukist mikið eftir hryðjuverkaárásirnar í Ósló og á Útey. Fylgi annarra flokka hefur minnkað samkvæmt skoðanakönnun Dagbladet sem fór fram í gær og fyrradag. Stuðningur við Verkamannaflokkinn mælist nú 41,7% sem er um 11% aukning frá því í júní. Stoltenberg þykir hafa staðið sig afar vel undanfarna daga.

Eyðileggingin mikil í Osló og Útey

Talið er að um þúsund verslanir og önnur þjónustufyrirtæki hafi skemmst í sprengingunni í Ósló fyrir rúmri viku. Mörg fyrirtækjanna eru á svæði sem lögreglan lokaði af eftir árásirnar og hafa því verið lokuð. Nokkrar verslanir hafa reynt að bregðast við með því að selja skemmdar vörur á lægra verði.

Yfir eitt þúsund manns hafa gefið í söfnun Rauða krossins

Yfir eitt þúsund manns hafa gefið í söfnun Rauða krossins vegna hungarsneyðar í Sómalíu með því að hringja í söfnuarsímann 904-1500. Tæplega tíu milljónir hafa safnast þannig en alls eru framlögin 6000. Með hverju símtali safnast 1500 krónur en sú upphæð gerir Rauða krossinum kleift að kaupa næringarríkan mat til að hjúkra einu barni til heilbrigðis.

Hundur beit tveggja ára stúlku á Selfossi

Tveggja ára stúlka er með rispur og marbletti eftir að smáhundur réðst á hana á Selfossi í gær. Stúlkan var í umsjá frænda síns og áttu þau leið framhjá íbúð eigenda hundsins, en var hurð og opinn og hundurinn reyndist vera laus. Hann réðst á stúlkuna og beit hana þegar hún gekk framhjá íbúðinni. Hún er ekki alvarlega slösuð en hefur verið skoðuð af lækni og fengið áverkavottorð.

Búist við stormi í Eyjum

Veðurstofa Íslands varar við stormi með suðausturströndinni og allra syðst á landinu seint í dag og fram undir morgun. Einnig er búist við stormi í Vestmanneyjum um tíma seint í kvöld og í nótt, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Tæplega 30 fíkniefnamál í Eyjum

Átta fíkniefnamál komu upp í Vestamanneyjum síðdegis í gær og nótt. Heildarfjöldi fíkniefnamála á yfirstandandi Þjóðhátíð er nú 29 en það eru álíka mörg mál og komið hafa upp á undanförnum árum, að sögn lögreglu.

Bifhjólamaður með höfuðáverka fluttur á sjúkrahús

Ökumaður bifhjóls missti stjórn á hjóli sínu með þeim afleiðingum að hann féll og hlaut höfuðáverka á öðrum tímanum í dag. Slysið varð á Kjalvegi við Arnarbæli sem er norðan við Hveravelli. Samkvæmt upplýsingum sem fengst hjá lögreglunni á Blönduósi verður farið með manninn sem er fertugur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ökumaðurinn er þýskur og var ásamt þremur samlöndum sínum á ferðalagi um Ísland á bifhjólum. Þeir tilkynntu um slysið.

Norska lögreglan betur mönnuð en sú íslenska

Íslenska lögreglan er ekki eins vel mönnuð og í Noregi. Væru hlutfallslega jafnmargir lögreglumenn í Reykjavík og nágrenni og í Ósló væru lögreglumennirnir 700-800 en ekki 350. Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Hundrað myrtir í SýrlandI

Tæplega 100 óbreyttir borgarar hafa fallið í meiriháttar skriðdrekaárás á borgina Hama í Sýrlandi, en mótmæli hafa magnast í borginni undanfarnar vikur. Umsátursástand hefur ríkt í borginni undanfarinn mánuð, en þar hefur verið gerð uppreisn gegn stjórnvöldum í landinu.

Von á þúsund gestum til Eyja í dag

Um 13 þúsund manns eru Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en Páll Scheving, formaður þjóðhátíðarnefndar, býst við að eittþúsund til viðbótar bætist við fyrir kvöldið. Hann vonast eftir góðu veðri í kvöld, en segir að gestir upplifi "La dolce vita" sama hvernig fer.

Rennslið sveiflast upp og niður

Sigþrúður Ármannsdóttir, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki hægt að segja til um hvort hlaupið í Skaftá hafi endanlega náð hámarki sínu. Undanfarinn sólarhring hafa verið sveiflur og náði rennslið toppum um átta leytið í gærkvöldi og aftur á miðnætti þegar það var um 340 rúmmetrar á sekúndu. Síðan féll það en fór að rísa aftur í morgun og er nú tæpir 300 rúmmetrar. Í hlaupinu í Skaftá í fyrra náði var rennslið þegar það var mest um 600 rúmmetrar á sekúndu.

Segir sveitarfélög fjármagna kjarasamninga með uppsögnum

„Sveitarstjórnarmenn hafa sagt við mig eftir þessa samninga, sem við höfum auðvitað orðið að gera því getum illa skorið okkur frá ríki og almennum markaði, er á þessa leið - þetta fjármögnum við með því að segja upp fólki,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ófáir axlapúðar á Akureyri

Mikill mannfjöldi var í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu. Á Ráðhústorgi var fjölbreytt dagskrá þar sem fjöldi listamanna kom fram. Að öðrum ólöstuðum voru það Dagur Sigurðsson og hljómsveit hans sem stálu senunni, að mati Skúla Gautasonar framkvæmdastjóra hátíðarinnar.

Umferðaröngþveiti bjargaði líklega lífi Gro Harlem Brundtland

Umferðaröngþveiti virðist hafa bjargað lífi Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, en hún var sem kunnugt er farin úr Útey þegar norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik kom þangað grár fyrir járnum og myrti tugi ungmenna, að því er norska dagblaðið Verdens Gang greinir frá.

Á fimmta tug fallnir eftir skriðdrekaárás

45 óbreyttir borgarar hafa fallið í meiriháttar skriðdrekaárás á borgina Hama í Sýrlandi. Að sögn mótmælenda er markmið árásanna að knésetja þá sem krefjast lýðræðisumbóta í landinu. Tugir fólks til viðbótar eru særðir eftir árásirnar, en að sögn læknis á einum af spítölum borgarinnar er ástandið grafalvarlegt. Hann segir að hermenn skjóti af hríðskotabyssum í allar áttir, en fréttastofa Sky hefur eftir einum íbúa borgarinnar að leyniskyttur hafi einnig komið sér fyrir á lykilstöðum.

Fjórtan óku of hratt

Lögreglan á Blönduósi stoppaði átta ökumenn á rúmum klukkutíma sem óku of hratt í Langadal í hádeginu í gær. Sá sem ók hraðast mældist á meira en 130 kílómetra hraða. Talsverð umferð hefur verið um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi um helgina. Alls voru 14 ökumenn stöðvaðir í gær fyrir að hafa of hratt. Flestir þeirra voru erlendir ferðamenn.

Þrír gistu sjálfviljugir hjá lögreglunni

Lögreglan í Vestmannaeyjum er hæstánægð með nóttina, en hún var að sögn lögreglu með rólegasta móti miðað við fjöldann á þjóðhátíð í Eyjum. Enginn gisti fangageymslur gegn vilja sínum, en lögregla skaut hins vegar skjólshúsi yfir þrjá að þeirra eigin beiðni, þar sem þeir voru ráfandi um og höfðu týnt tjöldunum sínum.

Annie Mist keppir til úrslita

Annie Mist Þórisdóttir, 21 árs íþróttakona úr Kópavogi, keppir í dag til úrslita á heimsleikunum í crossfit, í Los Angeles. Aðrir íslenskir kappendur sem tóku þátt, eru allir úr leik en alls keppa 15 Íslendingar á leikunum.

Sló mann í höfuðið með flösku

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn við tjaldsvæðið á Flúðum á fjórða tímanum í nótt eftir að hann sló mann í höfuðið með flösku. Sá hlaut djúpan skurð á höfði og blæddi talsvert og þurfti maðurinn að leita hlynningar á sjúkrahúsinu á Selfossi. Að sögn lögreglu gisti árásarmaðurinn í fangageymslu í nótt og verður hann yfirheyrður síðar í dag.

Bílvelta við Laugarvatn

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni skammt frá Laugarvatni á fimmta tímanum í nótt með þeim afleiðingum að bifreiðin valt. Ökumaðurinn sem var einn í bifreiðinni komst að sjálfsdáðum út úr henni eftir veltuna. Hann er ómeiddur. Ekki leikur grunur á að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis, samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá lögreglunni á Selfossi.

Fimm gistu fangageymslur

Fimm gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þrír vegna ölvunaraksturs en hinir tveir vegna ölvunar. Að öðru leyti fór nóttin vel fram í höfuðborginni að sögn lögreglu, en engin alvarleg líkamsárásarmál komu upp.

Fólk sofnaði ölvað úti á Akureyri

Talsvert var að gera hjá lögreglunni á Akureyri í nótt vegna skemmtanahalds en mikill fjöldi fólks var í miðbænum í gærkvöldi og nótt og þó nokkur ölvun. Lögreglan þurfti aðallega að hafa afskipti af fólki sem hafði sofnað ölvunarsvefni utandyra víðs vegar um bæinn. Einn gisti fangageymslu lögreglunnar sökum ölvunar. Þau mál sem komu til kasta lögreglu reyndust vera minniháttar.

Finna taflmann í fornri verbúð

Taflmaður sem skorinn hefur verið út úr ýsubeini var á meðal muna sem starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands fundu í rannsóknarleiðangri sínum á Siglunesi við Siglufjörð sem lauk í gær.

Sjá næstu 50 fréttir