Þyrlur Gæslunnar sóttu slasaðan sjómann í vitlausu veðri
Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru í gær kallaðar út til þess að sækja slasaðan sjómann um borð í litháíska flutningaskipið Skalva sem statt var um 115 sjómílur suðvestur af Reykjanestá. Þyrlurnar TF-LÍF og TF-GNÁ fóru í loftið rétt fyrir hádegi og voru þær komnar að skipinu rétt eftir klukkan hálfeitt. Ölduhæð á staðnum var um 6-8 metrar og vindur 40-50 hnútar. Um 10 mínútur tók fyrir skipið að komast á stefnu svo hægt væri að hefja hífingar að því er fram kemur á heimasíðu Gæslunnar. Mikil hreyfing var á skipinu og erfiðar aðstæður. Sigmaður seig niður í skipið og var sjúklingur síðan hífður í börum um borð í TF-GNA. Meðfylgjandi myndskeið er tekið af starfsmanni Landhelgisgæslunnar sem var um borð í annari þyrlunni.