Fréttir

Fækkar í þingflokki Samfylkingarinnar
Valdimar L. Friðriksson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, sagði sig úr flokknum í beinni útsendingu í Silfri Egils í dag. Þar með fækkar þingmönnum Samfylkingarinnar úr 20 í 19. Valdimar segir prófkjörsfyrirkomulagið hampa þeim sem koma frá stærri bæjum innan kjördæma og þeim sem hafa aðgang að fjármagni, en hann hafnaði í fjórtánda sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Tveir jeppar lentu saman á Sandskeiði
Tveir jeppar lentu saman á Sandskeiði á sjötta tímanum í kvöld. Ökumenn voru einir í bílunum og voru þeir fluttir á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahús. Ekki er vitað um meiðsl þeirra að svo stöddu. Báðir bílarnir eru gjörónýtir.
Launum verkafólks aðeins bjargað með 40-50% hækkun taxta
Eina leiðin til að bjarga launum verkafólks er að hækka taxta um allt að fimmtíu prósent, segir formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann segir umræðuna um erlent vinnuafl á villigötum, það sé hvorki hræðsluáróður né kynþáttafordómar að standa vörð um kjör launafólks.
Flugumferðarstjórar vilja halda réttindum opinberra starfsmanna
Flugumferðarstjórar vilja halda réttindum opinberra starfsmanna, ella fá þau bætt með einhverjum hætti. Á þessu stranda samningaviðræður við Flugstoðir ohf.

Árekstur á Sandskeiði
Árekstur varð á Sandskeiði nú fyrir skömmu. Lögreglan í Kópavogi er á leið á staðinn en ekki er talið að um alvarleg meiðsl á fólki sé að ræða.

Björgunarsveitarmenn hættir störfum í dag
Björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa hætt störfum í dag eftir að hafa haft í nógu að snúast vegna ófærðar frá því í nótt. Tekist hefur að rýma að mestu Víkurveg í Grafarvogi þar sem fjöldi bíla hefur setið fastur. Nokkrir árekstrar hafa verið í dag en lögreglunni í Reykjavík er ekki kunnugt um slys á fólki.

Efnistöku hætt þar til mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir
Fyrirtækið Björgun, sem nemur jarðefni af hafsbotni til frekari vinnslu, hefur hafið forvinnu við mat á umhverfisáhrifum á Kollafjarðarsvæðinu, í Hvalfirði og Faxaflóa. Umhverfisráðherra ákvað að umhverfismat ætti að fara fram vegna efnisnáms í Kollafirði. Björgun hefur ákveðið að hætta um sinn efnistöku á fyrrgreindum svæðum þar til niðurstaða mats á umhverfisáhrifum liggur fyrir.

Framlög til Félags Sameinuðu þjóðanna aukin
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, tilkynnti um aukin framlög ríkisins til Félags Sameinuðu þjóðanna á sérstakri afmælishátíð í dag.

Aðstoðarheilbrigðisráðherra Íraka rænt
Vopnaðir menn rændu í dag aðstoðarheilbrigðisráðherra Íraka þar sem han var staddur á heimili sínum. Ráðherrann, Síjinn Ammar al-Saffar, situr í ríkisstjórn Nuri al-Malaki og er í Dawaflokknum.

Messa felld niður vegna ófærðar
Vegna ófærðar verður kvöldguðsþjónustan sem átti að vera í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ, í kvöld klukkan átta, felld niður.

Ófærð á Víkurvegi í Grafarvogi
Lögreglan í Reykjavík varar vegfarendur við mikilli ófærð á Víkurvegi í Grafarvogi, sér í lagi við brúna yfir Vesturlandsveg. Fjöldi ökutækja hefur fest sig þar og hamlar það verki snjóruðningstækja. Björgunarsveitir og lögregla vinna nú að því að losa bifreiðar svo hægt sé að ryðja. Vegfarendur eru hvattir til að velja aðrar leiðir en Víkurveg.

Fagnaði 101 árs afmæli sínu í gær
Birna Jónsdóttir fagnaði í gær 101 árs afmæli sínu á Sauðárkróki. Meðalaldur Birnu og systra hennar, sem komust á legg, er 97 ár en það er hæsti meðalaldur fjögurra íslenskra systkina sem vitað er um.

Valdimar L. Friðriksson genginn úr Samfylkingunni
Valdimar Leó Friðriksson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, er genginn úr Samfylkingunni og þar með þingflokki hennar. Valdimar greindi frá þessu í þættinum Silfur Egils á Stöð 2 í dag en tilkynnti varaformanni Samfylkingarinnar í morgun að hann væri hættur í flokknum. Valdimar ætlar að starfa sem óháður þingmaður á Alþingi.
Birtir uppgjör úr prófkjörsbaráttu sinni
Sigríður Andersen, sem hafnaði í 10. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur birt uppgjör á kostnaði við prófkjör sitt. Sigríður telur að flokkar og framboð eig að hafa sjálfdæmi um hversu mikið af upplýsingunum þau birta.

Styrktartónleikar í þágu fatlaðra barna
Caritas á Íslandi, góðgerðarsamtök kaþólsku kirkjunnar, efna í dag til styrktartónleika í þágu fatlaðra barna, í Kristskirkju við Landakot. Þetta er í þrettánda sinn sem Caritas efnir til styrktartónleika en í ár rennur allur ágóðinn til Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins.

Sigurbjörn Einarsson biskup predikaði
Kirkjugestir í Grafavogskirkju í morgun létu ekki veðrið koma í veg fyrir að þeir mættu í messu. Sigurbjörn Einarsson biskup predikaði í morgun en hann er 95 ára. Sigurbjörn sló á létta strengi í predikun sinni en Sigurbjörn hefur þótt kraftmikill predikari. Fyrir messuna voru haldin fjögur erindi um biskupinn.

Kristinn segir ekki á döfinni að ganga úr Framsóknarflokknum
Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir ekki á döfinni að segja sig úr Framsóknarflokknum. Þetta sagði Kristinn í þættinum Silfur Egils á Stöð 2. Kristinn lenti í þriðja sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í fyrradag. Flokkurinn hefur nú tvo þingmenn í kjördæminu.
Eitrað fyrir njósnara
Breska lögreglan rannsakar nú hvernig eitrað hafi verið fyrir rússneskum njósnara sem leitaði hælis í Bretlandi fyrir sex árum. Hann liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Gefin saman í ítölskum miðaldakastala
Hollywood-stjörnurnar Tom Cruise og Katie Holmes gengu í það heilaga á Ítalíu í gær. Þetta var staðfest um kl. 19:30 í gærkvöldi. Fjölmargar stjörnur voru viðstaddar athöfnina en knattspyrnukappinn David Beckham varð frá að hverfa að kröfu þjálfara síns hjá Real Madrid.
Tónleikum aflýst vegna færðar
Aflýsa þarf tónleikum Harmonikkufélags Reykjavíkur sem halda átti í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan þrjú í dag. Ástæðan er slæmt veður og færð.
Lágmarkslaun þurfa að hækka um 40-50%
Verkalýðshreyfingin þarf að sýna tennurnar í næstu kjarasamningum og fá lágmarkslaun hækkuð um 40-50%, segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Bretar og Pakistanar taka höndum saman
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Pervez Musharraf, forseti Pakistans, samþykktu á fundi sínum í morgun að styrkja samstarf ríkjanna í baráttunni við hryðjuverkamenn. Blair og Musharraf hittust til fundar í Lahore í Austur-Pakistan.
Sjálfsvígsárás í Hillah
Minnst 22 féllu og rúmlega 40 særðust þegar bílsprengja sprakk nærri hópi farandverkamanna í bænum Hilla í Suður-Írak í morgun. Að sögn lögreglu var sendibíl ekið að hópnum og sprakk bíllinn í loft upp þegar mennirnir flykktust að honum. Flestir hinna látnu voru sjíar. Árásir sem þessar eru tíðar í Hillah.

Myrti föður, sambýliskonu og son
Ódæðismaðurinn sem myrti þrjá úr fjölskyldu sinni í Noregi í gær ræddi við einn ættingja sinn í síma rétt áður en hann svipti sig lífi. Norska lögreglan upplýsti þetta í morgun. Ekki fæst þó gefið upp hvern hann ræddi við eða um hvað. Fórnarlömb mannsins voru faðir hans, sambýliskona og fjórtán ára sonur.

Hættu við árás
Ísraelsher hætti við loftárás á hús í Jabalya-flóttamannabúðunum á Gaza-svæðinu í morgun. Mörg hundruð Palestínumenn höfðu slegið skjaldborg um húsið.

Í fangageymslu eftir hótelferð
Maður gistir í fangageymslum hjá lögreglunni á Selfossi eftir að hafa brotist inn á Hótel Selfoss í nótt. Maðurinn sem var mjög ölvaður var tekinn þar sem hann ráfaði um ganga hótelsins. Hann verður yfirheyrður í dag þegar hann vaknar.
Búið að opna í Hlíðarfjalli
Hlíðarfjall var opnað núna klukkan tíu og opið verður til klukkan fjögur í dag. Klukkan átta í morgun var sjö stiga frost og logn við fjallið. Flestar lyftur verða í gangi og skíðafæri er gott, troðinn og þurr snjór. Þá er búið að troða fimm kílómetra gönguhring. Aðstæður til skíða og snjóbrettaiðkunar eru með besta móti.
Bláfjöll og Skálafell opna ekki í dag
Óvíst er hvenær hægt verður að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum og Skálafelli - en það er alveg ljóst að það næst ekki að opna svæðið í dag. Friðjón Axfjörð Árnason verkefnisstjóri á skíðasvæðinu sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nokkurn tíma tæki að gera svæðin klár fyrir fyrstu opnun. Auk þess hefðu flutningar verið í gangi en starfsemi skíðadeildar Víkings hefur verið lögð niður á Hengilssvæðinu og búið að flytja lyftur þeirra upp í Bláfjöll.

Beckham mætti ekki
Hollywood-stjörnurnar Tom Cruise og Katie Holmes gengu í það heilaga í gær. Athöfnin fór fram í miðaldakastala í Bracciano á Ítalíu. Við athöfnina var farið að kennisetningum Vísindakirkjunnar sem Cruise tilheyrir. Margt frægra var við athöfnina en knattspyrnukappinn David Beckham varð frá að hverfa því hann var kallaður aftur til Spánar. Hann mun hafa haldið til Rómar í óþökk þjálfara síns hjá Real Madrid. Viktoría kona hans mætti því ein í brúðkaupið.
Hátt í 50 útköll á Akranesi
Upp undir fimmtíu útköll hafa verið hjá lögreglunni á Akranesi frá því klukkan þrjú í nótt og menn hafa verið á fullu að losa bíla sem sitja fastir þvers og kruss um bæinn. Eins var lögreglan að aðstoða fólk að komast af veitingastöðum og til vinnu á sjúkrahús og dvalarheimili. Engin tjón hafa orðið svo lögreglan viti til.