Innlent

Þörf á túlkun metin þrátt fyrir lögbundinn rétt

Í lögum um sjúklinga er skýrt tekið fram að sjúklingur sem ekki tali íslensku eða notar táknmál skal tryggð túlkun á upplýsingum.
Í lögum um sjúklinga er skýrt tekið fram að sjúklingur sem ekki tali íslensku eða notar táknmál skal tryggð túlkun á upplýsingum. Nordic photos/Getty
Eingöngu heilbrigðisstarfsmenn panta túlka hjá Heilsugæslunni og meta hvort þörf sé á slíku, segir Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, þegar hann er spurður um reglur í túlkaþjónustu fyrir útlendinga sem tala ekki íslensku.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að víða séu brotin lög um túlkaþjónustu á Íslandi og ekki kallaður til túlkur þótt viðkomandi hafi rétt á því. Nefnt var dæmi um konur sem fá eingöngu tvisvar túlk í mæðraeftirliti.

Jónas segir engar takmarkanir vera á fjölda skipta sem sjúklingur fái túlk en þar sem heilbrigðisstarfsmenn sjái um samskipti við skjólstæðinginn byggi túlkaþjónustan á áliti þeirra.

„Starfsmaður sér hvernig gengur að eiga samskipti við viðkomandi, og hvort það þurfi að kalla til túlk yfirhöfuð eða kalla til túlk í fleiri skipti. Ef skjólstæðingur óskar eftir túlki þá ræðir hann það við starfsmanninn sem tekur ákvörðun um málið.“

Margrét Steinarsdóttir
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að í lögum um réttindi sjúklinga sé skýrt tekið fram að „eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum.“

„Þótt sjúklingur geti bjargað sér á íslensku í daglegu máli er ekki þar með sagt að hann skilji flókið læknamál til fullnustu eða geti spurt spurninga sem eru mikilvægar. Það kemur hvergi fram í lögum að meta eigi hvort þörf sé á túlkun heldur eru réttindi til túlkunar afdráttarlaus. Það er varhugavert að setja reglur sem ganga lengra en lögin mæla fyrir.“ 

Jónas segir útgjöld vegna túlkaþjónustu hafa hækkað um 29 prósent á síðasta ári og sextán milljónir hafi verið greiddar fyrir þjónustuna. Hann segir stefnuna vera að samskipti séu sem mest bein á milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanns og ekki sé mælt með að ættingar eða vinir sjái um túlkunina. 

Sama stefna er á Landspítalanum. Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir að unnið sé eftir lögum um rétt sjúklinga þótt ekki sé hægt að svara fyrir einstök atvik. Hún segir nokkra aukningu hafa verið í pöntunum á túlkum á spítalanum en á síðasta ári voru greiddar rúmar tuttugu milljónir fyrir þjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×