Upp­gjörið: Víkingur - Valur 1-2 | Ís­lands­meistararnir fá úr­slita­leik á heima­velli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
valur anton
vísir/Anton

Valur vann 2-1 sigur á útivelli gegn Víkingi í næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna. Sigurinn tryggði Val hreinan úrslitaleik á Hlíðarenda gegn Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn næsta laugardag. 

Valur stýrði leiknum en skapaði fá færi og fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill. Víkingur átti marga góða en mjög undarlega spilkafla, létu boltann flæða í öftustu línu og náðu oft að spila sig upp á vallarhelming Vals, en þá gáfu þær háan og langan bolta, sem rataði yfirleitt ekki á samherja.

Fanndís Friðriksdóttir braut ísinn eftir rúmar tuttugu mínútur með skoti sem fór af varnarmanni og lak yfir línuna, markmaður Víkinga lagður af stað í hitt hornið.

Anna Rakel Pétursdóttir tvöfaldaði svo forystuna rétt fyrir hálfleik með glæsimarki beint úr aukaspyrnu. Fallegt skot sem sveif í samskeytin og markmaðurinn náði ekki til boltans.

Valur fór með tveggja marka forystu inn í hálfleik en Víkingar minnkuðu muninn mjög snemma í seinni hálfleik. Shaina Ashouri með góðan sprett og laglega afgreiðslu.

Markið jók spennuna töluvert, jafntefli hefði drepið vonir Vals um Íslandsmeistaratitilinn, en spilamennska liðanna batnaði ekki mikið.

Afskaplega lítið gerðist það sem eftir lifði, mikið af lélegum sendingum og nær engin færi. Anna Rakel var reyndar hársbreidd frá því að skora annað mark beint úr aukaspyrnu, en boltinn small í stöngina og út.

Í uppbótartíma gaf Víkingur loksins í, sendu allt sem þær áttu fram völlinn og sköpuðu mikla hættu í teignum en tókst ekki að koma almennilegu skoti að. Valskonur vörðust vel, héldu út og fögnuðu 1-2 sigri.

Atvik leiksins

Fátt sem stendur upp úr. Engin vafaatriði eða dauðafæri sem fóru forgörðum og skiptu sköpum upp á niðurstöðuna. Markið sem Víkingur skoraði hefði átt að opna leikinn mun meira en það gerði en Víkingum tókst ekki að nýta meðbyrinn og herja meira á.

Stjörnur og skúrkar

Anna Rakel með fína frammistöðu og sturlað mark, sem endaði á því að vinna leikinn fyrir Val. Elísa Viðarsdóttir mætt aftur í byrjunarliðið og stöðvaði alla umferð vinstra megin í vörninni. Öll varnarlína Vals átti reyndar ágætis dag, eða kannski frekar sóknarmenn Víkings sem áttu slæman dag, um það má rífast.  

Stemning og umgjörð

Glæsilega að leiknum staðið. Frítt inn og frír ís fyrir alla, um meira er ekki hægt að biðja. Það skilaði mjög fínni mætingu en stemningin var í takt við leikinn, róleg. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira