Upp­gjörið: Breiða­blik - FH 4-2 | Breiða­blik vann í markaleik og mætir Val í hreinum úr­slita­leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Leikmenn Breiðabliks fagna einu af fjórum mörkum sínum í dag.
Leikmenn Breiðabliks fagna einu af fjórum mörkum sínum í dag. Vísir/Ernir

Breiðablik og Valur munu mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta kvenna en þetta varð ljóst eftir 4-2 sigur Blika á móti FH í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli í dag. Á sama tíma hafði Valur betur á móti Víkingi.

Blikar hafa eins stigs forskot á Val fyrir leik liðanna í lokaumferðinni. Valur þarf því á sigri í þeim leik að halda til þess að halda Íslandsmeistaratitlinum á Hlíðarenda en liðin munu eigast við á Kópavogsvelli.

FH hóf leikinn betur í dag en Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom gestunum yfir með snotru marki eftir fímm mínútna leik. Samantha Rose Smith jafnaði hins vegar metin eftir um það bil 20 mínútna leik og á tveggja mínútna millibili eftir um hálftíma leik voru Blikar komnir í 3-1 með mörkum frá Andreu Rut Bjarnadóttur og öðru marki Samönthu Rose Smith í leiknum.

Samantha hefur nú skorað níu mörk í þeim sex deildarleikjm sem hún hefur spilað fyrir Breiðablik síðan hún gekk til liðs við félagið frá FHL í sumarglugganum.

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir lagaði stöðuna fyrir FH með marki sínu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Jafnræði var með liðunum fram að því að Katrín Ásbjörnsdóttir innsiglaði sigur Breiðabliks þegar rúmlega klukkutími var liðinn af leiknum.

Samantha lagði upp mark Katrínar og skoraði þar af leiðandi tvö mörk í þessum leik og átti eina stoðsendingu. 

Það ræðst svo á laugardaginn eftir slétta viku hvort það verður Breiðablik eða Valur sem stendur uppi sem Íslandsmeistari á þessu keppnistímabili.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira