Upp­gjörið: Þór Þ. - Grinda­vík 95-104 | Grind­víkingar með stál­taugar í lokin

Siggeir Ævarsson skrifar
Daniel Mortensen var öflugur í liði Grindvíkinga í kvöld.
Daniel Mortensen var öflugur í liði Grindvíkinga í kvöld. Vísir/Anton Brink

Grindvíkingar sóttu tvö stig í Þorlákshöfn í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld eftir níu stiga sigur, 104-95 en Grindavíkurliðið var bæði án þjálfara síns og fyrirliða. NBA-maðurinn Jeremy Pargo lék sinn fyrsta leik og skoraði 25 stig.

Það var mikið undir í kvöld en liðin voru hnífjöfn að stigum fyrir leik, ásamt KR og Val, í 4. – 7. sæti, og þar fyrir utan aðeins tvö stig í næstu tvö lið fyrir neðan.

Grindvíkingar hafa gengið í gegnum töluverðar mannabreytingar síðustu daga og vikur og var Jeremy Pargo mættur til leiks í fyrsta sinn en þessi 38 ára fyrrum NBA leikmaður er augljóslega ekki dauður úr öllum æðum.

Það sást á leik Grindvíkinga í byrjun að þeir voru enn að finna taktinn en eftir smá bras í upphafi keyrðu gestirnir upp hraðann og ákefðina en þeir voru komnir með sjö stolna bolta í hálfleik gegn þremur hjá heimamönnum.

Ákefðin í vörninni skilaði Grindvíkingum mörgum hraðaupphlaupum og ófáum troðslum. Þórsarar voru þó ekki á því að láta rúlla algjörlega yfir sig en munurinn í hálfleik var þrettán stig, 37-50.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og minnkuðu muninn í sjö stig. Varnarleikur Grindvíkinga var annað hvort algjörlega á lás eða einhversstaðar lengst út á túni. Þristarnir voru líka að detta hjá Þórsurum en ótrúlegur flautuþristur frá Emil Karel, spjaldið ofan í, gerði það að verkum að aðeins munaði fjórum stigum fyrir lokasprettinn, 70-74.

Emil jafnaði svo leikinn í 79-79 og úr varð æsispennandi lokakafli og Þórsarar komust yfir á ný þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Mustapha Heron fór þar mikinn og réðu Grindvíkingar illa við hann undir körfunni eða gleymdu honum opnum í horninu.

Grindvíkingar áttu þau svör og það voru þeir Jeremy Pargo og Daniel Mortensen en Pargo skellti síðasta naglanum í kistulokið með þristi sem hefði sennilega gefið fjögur stig í síðustu deild sem hann spilaði í.

Lokatölur urðu 95-104 og Grindvíkingar slíta sig aðeins frá pakkanum í miðri deild.

Nánari umfjöllun og viðtöl á Vísi síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira