Upp­gjörið: Njarð­vík - Þór Ak. 93-80 | Sjö­tti sigur grænna í röð

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Emily Sofie Hessedal og stöllur hennar í Njarðvík eru á góðri siglingu.
Emily Sofie Hessedal og stöllur hennar í Njarðvík eru á góðri siglingu. Vísir/Diego

Njarðvík tók á móti Þór Akureyri í kvöld þegar Bónus deild kvenna hélt áfram göngu sinni. Búið er að skipta deildinni upp í efri og neðri hluta og mættust liðin í fyrstu umferð efri hlutans í IceMar-höllinni í Njarðvík. Það er vika síðan þessi lið mættust á sama velli og þá hafði Njarðvík betur með tíu stigum. Þær bættu um betur í kvöld og höfðu að lokum þrettán stiga sigur 93-80.

Njarðvík tók uppkastið og átti fyrstu stig leiksins. Þór Akureyri komst í 2-4 en eftir það tók Njarðvík öll völd og röðuðu niður hverjum þristinum á fætur öðrum í fyrsta leikhluta. Njarðvík endaði leikhlutann með 50% nýtingu í þristum, 6/12.

Það var snemma ljóst að það yrði á brattan að sækja fyrir gestina sem byrjuðu snemma að elta góða forystu Njarðvíkur. Heimakonur voru með tíu stiga forskot eftir fyrsta leikhluta 26-16.

Það var ljóst að Þór Akureyri nýtti stoppið milli leikhluta til að skerpa á sínu liði. Þær mættu í allt öðrum gír út í annan leikhluta og voru miklu grimmari í alla seinni bolta og náðu að saxa niður forskot Njarðvíkur.

Þór Akureyri náði að minnka þetta mest niður í fjögur stig áður en Njarðvík tók við sér aftur og fundu sína fjöl. Þær reyndust sterkari eftir því sem leið á og fóru að lokum með ellefu stiga forskot inn í hálfleikinn 48-37.

Seinni hálfleikurinn byrjaði brösulega hjá báðum liðum. Bæði lið voru að kasta boltanum frá sér en það voru þó heimakonur í Njarðvík sem voru fyrr til að ná upp sínum leik.

Njarðvík virtist vera að hlaupa með leikinn og komust í sautján stiga forskot þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður en þá tók Þór Akureyri leikhlé til að skerpa á hlutunum. Eftir það leikhlé mættu þær fullar af orku og áttu flotta rispu. Njarðvík leiddi með tíu stigum 66-56 eftir þriðja leikhluta.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhlutann af miklum krafti og nánast kaffærðu leiknum strax á upphafsmínútum fjórða leikhluta. Þór Akureyri átti fá svör við leik Njarðvíkinga en náðu þó fínu áhlaupi seinni part leikhlutans en náðu þó aldrei að nálgast Njarðvík að neinu viti sem fór með sannfærandi þrettán stiga sigur 93-80.

Atvik leiksins

Byrjun Njarðvíkur í fjórða leikhluta kaffærði þessum leik endanlega. Lið Þórs átti flottan endi á þriðja leikhluta en náðu engan veginn að taka það mómentum með sér í fjórða.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Njarðvík var oftar sem áður Brittany Dinkins frábær með 26 stig. Brittany Dinkins var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu en hún reif niður tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar að auki. Paulina Hersler var þá einnig virkilega öflug og endaði stigahæst með 28 stig.

Hjá Þór Akureyri voru Amandine Justine Toi og Emma Karólína Snæbjarnardóttir þær sem gátu borið höfuð hátt eftir kvöldið. Toi endaði stigahæst á vellinum með 31 stig.

Dómararnir

Heilt yfir þá var ekki yfir neinu að kvarta. Fannst þeir hafa góð tök á leiknum og skila af sér flottum leik.

Stemingin og umgjörð

Umgjörðin í Njarðvík eftir flutning er til fyrirmyndar. Allt sem þú þarft er hér að finna í þessu stórglæsilega mannvirki. Var þokkalegasta mæting.

Viðtöl

„Færð mig ekki í einhverja umræðu um Íslandsmeistaratitilinn núna“

Njarðvíkingarnir hans Einars Árna Jóhannssonar eru heitasta lið Bónus deildarinnar um þessar mundir.vísir/jón gautur

„Ég er ánægður með tvö gríðarlega mikilvæg stig og margt gott í okkar leik í dag,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir sigurinn í kvöld.

„Sóknarlega vorum við frábærar í fyrri hálfleik. Við hreyfðum boltann ofboðslega vel. Gott jafnvægi inni og úti. Margar að leggja í púkkið. Ég held að við höfum lagt grunninn þar, náðum okkur í þessu 10-12 stig sem að fóru í raun aldrei,“ sagði Einar Árni og hélt áfram.

„Seinni hálfleikur byrjaði frábærlega, þær mæta út í tveir, þrír svæði og við leystum það virkilega vel og bjuggum til fullt af sniðskotum og þær hörfuðu frekar snögglega úr svæðinu. Ég myndi segja að þetta svona sóknarlega var virkilega gott. Varnarlega vorum við bara frekar „solid“ fannst mér í dag. Auðvitað á móti svona góðu sóknarliði þá þarftu alltaf að gefa eitthvað upp og [Amandine] Toi var aktív allan tímann og reyndi mikið og gerði á köflum vel. Mér fannst við takmarka aðrar ef Emma er undanskilin sem byrjaði leikinn frábærlega,“ sagði Einar Árni.

Það gerist ekki oft í liði Njarðvíkinga að Brittany Dinkins endar ekki stigahæst í þeirra liði en það var raunin í kvöld þegar Paulina Hersler endaði leikinn með 28 stig.

„Pau er náttúrulega bara gríðarlega reyndur leikmaður og búin að vera spila á háu leveli á sínum ferli bæði á Ítalíu, Spáni, Tyrklandi og bara feyki öflugur spilari. Hún er ekki að koma okkur á óvart. Hún er virkilega öflug og hún er að skora með bakið í körfuna, hún er að skora af rúlli, hún er að grípa og skjóta og hefur góðan alhliða leik. Hún gefur Emile enn meira svigrúm í sóknarleiknum líka og skotmennirnir okkar eru búnir að öðlast í raun bara stærra og meira líf sömuleiðis. Eins brjálæðislega góð og Brittany er þá líður henni líka vel að hún þarf ekki að vera bera þetta á herðum sér og það hefur ekkert verið í síðustu leikjum og ég held að það verði ekkert og þurfi ekkert,“

Einar Árni talaði um það eftir síðasta leik að Njarðvík færi svolítið undir radarinn í öllu tali um titil baráttu en það er ekki hægt að horfa framhjá þessu Njarðvíkurliði núna.

„Ég verð að vera sanngjarn. Fyrir það fyrsta þá breytir Paulina liðinu okkar mikið. Við með hana eða án hennar er nátturlega tvö ólík lið klárlega. Hún og Eygló hækka liðið okkar mikið þannig ég skil alveg að við höfum lengi vel ekki verið í umræðunni. Ég sagði reyndar líka eftir síðasta leik að það væri komið vor en það er ennþá febrúar en það er bara gaman að við séum að ná góðum takti og nú þurfum við bara að fara undirbúa okkur fyrir Keflavík. Þú færð mig ekki í einhverja umræðu um Íslandsmeistaratitilinn núna. Það er svo langt, langt þangað til að sú barátta fer af stað fyrir alvöru,“ sagði Einar Árni að lokum.

„Vil að leikmenn finni bara sinn takt aftur“

Daníel Andri Halldórsson var ekki sáttur eftir leikinn í Njarðvík.vísir/diego

„Ég er klárlega svekktur. Við sýndum ekkert nýtt eða öðruvísi frá því í fyrsta leiknum,“ sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs Ak., eftir tapið í kvöld.

„Við vorum fljótar að missa haus. Mér finnst vera full mikil dramatík í hópnum eftir hin töpin. Þetta er sami hópur, sama lið og sami þjálfari sem að unnu fullt af leikjum í röð þannig það þarf bara að finna taktin og við þurfum að fara fá framlag frá lykil leikmönnum aftur,“ sagði Daníel.

Þetta var annar sigur Njarðvíkur í röð gegn Þór Akureyri á rétt um viku. Báðir leikirnir enduðu á að verða nokkuð þægilegir fyrir Njarðvík en hvað veldur þessum tökum hjá Njarðvík?

„Þetta er bara „physical“ lið. Á köflum finnst leikmönnum ekki vera sama lína með dómgæslu og þær fljótar að missa hausinn útaf því finnst mér,“ sagði Daníel.

Gestirnir sýndu á tíðum flottar rispur sem hótuðu endurkomu sem varð þó aldrei raunin.

„Það fer gríðarleg orka og einbeiting í það að koma tilbaka í svona leik þegar það er búið að missa tökin. Við vorum bara aftur komnar í alltof djúpa holu og það fer mikil orka í að reyna komast upp úr þessari holu. Þegar það kemur svo opin þristur hérna eftir einhverjar róteringu eða skot í lok skotklukkunar sem að fer ofan í þá eru þær allar fljótar að missa hausinn aftur finnst mér,“ sagði Daníel.

Það mátti heyra að hann væri sár og svekktur með sitt lið í kvöld en hvað vill hann sjá frá sínu liði horfandi fram veginn?

„Ég vil sjá „effort“ og ég vil að leikmenn finni bara sinn takt aftur. Eftir landsleikjahléið þá eru bara lykil leikmenn sem eru bara ekki mættar aftur. Það eru vissulega einhver eymsli og meiðsli en ef við ætlum að byrja aftur að vinna einhverja leiki þá þurfum við klárlega á þeim að halda hérna í restina,“ sagði Daníel að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira